Allir vildu Lilju kveðið hafa
 

 
Almennt fnuss út í heiminn
 
 
   
 
föstudagur, október 15, 2004

fimmtudagur, september 02, 2004
 
Jæja, þá er ég byrjuð í skólanum aftur. Það er skrýtið að vera komin hingað aftur þar sem ég er búin að vera í nokkurs konar hugsanafríi í allt sumar. Meirihlutinn af vinnudeginum mínum fór nefnilega í að leika mér á Internetinu. En nú er komið að verkefnum, forgangsröðun verkefna, lestri og langtímasetu. Ég keypti mér tvær bækur um námstækni, þar sem ég er ákveðin í því að bæta einkunnirnar og koma mér til útlanda næsta ár. Reyndar er ég ennþá að bíða eftir sumarprófseinkununum (því ekki geta kennararnir komið með þær á réttum tíma) og í hvert einasta skipti sem ég sé SMS í símanum mínum stressast ég upp. Sumarprófseinkunnirnar munu nefnilega hafa svolítið að segja um hvort ég komist út á næsta ári.
Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að ég muni ekki djamma eins mikið í ár eins og seinustu ár, sennilega vegna þess að ég er ekki stjórn í ár. Það er samt dálítið erfitt að venja mig af því að segja "við í stjórninni". En nú hef ég víst ekki meiri tíma til að skrifa. Ég læt heyra í mér seinna.

föstudagur, júlí 23, 2004
 
Átt þú svartan ruslapoka??
Mikið ofsalega fannst mér merkilegt í gær þegar Inga systir mín fór að tala um kassa sem hana vantar. Hún er víst búin að leita og leita að honum en hvergi finnst hann. En hvað er svona merkilegt við þennan kassa? Ja, miðað við sögu fjölskyldunnar þá er einn af þeim kössum sem endalaust er hægt að bæta í. Mamma og pabbi eiga einn svoleiðis, sem að vísu er ekki kassi heldur svartur ruslapoki og það er alveg ótrúlegt hversu miklu magni af dóti er hægt að koma fyrir í honum. Að vísu er þetta aðeins gamalt dót eins og leikföng sem við systurnar áttum þegar við vorum litlar, gömul föt af okkur í fjölskyldunni, gamlar bækur, plötur, verkfæri, bollar, spil, glös og margt, margt fleira, og það er alltaf að bætast í hann. Eina vandamálið er að þessi frábæri ruslapoki finnst ekki, þar sem hann hvarf eitt skiptið þegar við vorum að flytja. En það kemur samt sem áður ekki í veg fyrir að hægt sé að bæta í hann, vegna þess að þegar við erum að rifja upp skemmtilegt dót frá barnæsku og erum að velta fyrir okkur staðsetningu þess, kemur oft upp spurningin: "Var það ekki bara í svarta ruslapokanum sem var hent (mamma segir að pokanum hafi verið hent, þó að enginn kannast við að henda honum)?" Og nú er Inga systir búin að fá einn svona kassa sem hún er alltaf að bæta í, þrátt fyrir að í honum hafi átt að vera bækur, bollar, nokkur handklæði, styttur og eitthvað fleira. Svo nú hlýt ég bara að spyrja hvort kassinn hennar hafi ekki lent í svarta ruslapokanum okkar?

föstudagur, júlí 02, 2004
 
Dúdúrúdd. Jæja, þá er komið að ferðahelginni miklu. Já, ótrúlegt en satt þá ætla ég að fara að Skógum þessa helgi að skemmta mér. Ástæðurnar fyrir því eru tvær. Í fyrsta lagi mun ég ekki geta farið á verslunarhelgardjamm vegna próflesturs í ágúst, þannig að það er alveg eins gott að prófa þetta núna, og í öðru lagi er ég að fara með alveg ótrúlega sætan Hollending sem hefur aldrei farið í alvöru íslenska útilegu (enda bara búinn að vera hérna í sex mánuði). Ég er að vona í bjartsýni minni að veðrið verði gott, þar sem ég nenni ekki að vera köld og blaut alla helgina, en ef það gerist ekki ætli maður fari ekki seint af stað í kvöld og snemma af stað á sunnudaginn. Síðan eru sumir sem segja að maður eigi bara að drekka meira. Ég var einmitt að spá í því að kaupa heilar tvær kippur af bjór, en eftir að hafa drukkið eitt glas af rauðvíni og eitt glas af bjór í gær með þeim afleiðingum að ég varð frekar nett, ákvað ég að ein kippa væri örugglega meira en nóg yfir helgina. Síðan er ég að fara að keyra að Skógum, og vorkenni eiginlega Hollendingnum, því ég er ekki alveg komin með sjálftraust til þess að fara fram úr hægfara ökumönnum. Reyndar er ég hægfara ökumaður. En ég held að það komi ekki að sök á sunnudaginn, þar sem umferðin verður svo mikil að eina leiðin til að sjá hver er hægfara og hver hraðfara er óþolinmæðisvipurinn á fólki.
Hverjum datt annars í hug að halda Metallica-tónleika sama dag og fólk er að koma úr útilegu? Er það ekki bara ávísun á slys? Stjórnendur Metallica hefðu átt að vita betur. Vilja þeir í alvöru fá fólk sem er annaðhvort þunnt eða fullt eftir helgina í salinn til þess að slamma framan í hljómsveitina?? Það eru til betri leiðir til þess að losna við þynnku heldur en að reka hausinn í mann og annan. Sjáið þið ekki líka fyrir ykkur vatnsmagnið sem hljómsveitarmennirnir fá framan í og á sig þar sem flestir munu ábyggilega ekki hafa tíma til þess að þurrka á sér hárið áður en þeir fara á tónleikana? Greyin fara ábyggilega af landinu með þá hugsun að það rigni svo mikið á Íslandi að maður sé blautari á leiðinni út úr húsi heldur en á leiðinni inn í það. Síðan er eins gott að þeir séu ekki í fatnaði sem getur hlaupið, þar sem það gæti haft áhrif á raddstyrkinn. Þröngar gallabuxur verða nefnilega ennþá þrengri þegar þær eru blautar, og þrenging á réttum (röngum??) stöðum getur haft þau áhrif að þungarokkshljómsveit hljómar eins og Bee Gees á sýrutrippi. Ég vona að þeir fari a.m.k. að ætlast til þess að fólk syngi með, því eftir þessa helgi (kvöldvökur, öskur, áfengisdrykkja) mun ábyggilega meirihlutinn af fólkinu drekkja öllum salnum í hóstakjöltri. Nei, segi bara svona!

mánudagur, júní 21, 2004
 
Halló, dúllurnar mínar. Hvað segið þið gott?? Ég átti alveg dásamlega helgi, naut sólarinnar (sem var ekki mikil reyndar) og gerði ýmislegt, aldrei þessu vant. Við Inga notuðum helgina til þess að koma okkur upp þoli fyrir næstu helgi og gengum á Esjuna á laugardaginn. Við komumst báðar að því að við erum í betra líkamsástandi heldur en við gerum okkur grein fyrir, þar sem við náðum að komast langleiðina upp Esjuna og niður aftur á tveimur tímum (með smá hjálp frá Powerade). Við vorum að velta fyrir okkur að ganga aftur á Esjuna í gær en sökum harðsperra fórum við á línuskauta í staðinn. Það var mjög gaman en ég held að Inga hafi skemmt sér meira en ég, þar sem hún fékk að hlæja að mér á meðan ég barðist við að halda mér uppi. Ég lenti oftar en einu sinni í því að þurfa að hoppa út á gras til þess að forðast árekstur við aðra og til þess að forðast ofsahraða. Annars kenndi Inga mér hvernig ég ætti að hægja ferðina (beygja hnén, vinstri fótur fyrir aftan hægri fót og bremsa) og ég held að stellingin sem ég var í hafi minnt á manneskju með hægðatregðu að reyna að losa um stífluna. En ég náði a.m.k. að stoppa mig. Að öðru leyti var helgin róleg.

mánudagur, júní 14, 2004
 
Híhí, nú er víst hægt að segja að ég er endanlega orðin vitlaus. Við Inga erum nefnilega á leiðinni yfir Fimmvörðuhálsinn á Jónsmessunni. Það þýðir að ég hef tvær vikur til þess að koma upp miðlungsþoli með því að fara í leikfimi, labba og synda. Svo ætla ég á Esjuna um helgina. Vill einhver koma með? Annars líst mér rosalega vel á það að fara yfir Fimmvörðuhálsinn nóttina eftir Jónsmessu (sem sagt aðfaranótt laugardagsins) því þetta er jú gamall draumur sem rætist. Þá er bara spurning um að hafa með sér nógu mikið af orkudrykkjum og orkuríkum mat. Jibbíííí!!!

föstudagur, júní 04, 2004
 
Aðvörun! Hér á eftir kemur hressilega mikið af blóti og sjálfsvorkunn, þannig að viðkvæmum aðilum er ráðlagt að sleppa því að lesa þennan pistil.ANDSKOTINN, ANDSKOTINN, ANDSKOTINN!!! Ég ætla að leyfa mér að blóta allhressilega, þar sem þetta er síðan mín og ég hef góða afsköpun. Ég var nefnilega að falla í fyrsta skipti á ævi minni í tveimur prófum. ANDSKOTANS DJAMM, HELVÍTIS FÉLAGSLÍF og allt annað sem tók tíma frá náminu. DJÖFULLINN! Þótt að það hafi verið gaman í vetur, þá er greinilegt að ég get ekki tekið svona mikinn tíma frá náminu eða tvískipt athyglinni. Búh, hú, nú fer meirihluti sumarsins í að lesa námsbækur. *grenj* DJÖFULLINN!

 

 
   
  This page is powered by Blogger, the easy way to update your web site.  

Home  |  Archives