Allir vildu Lilju kveðið hafa
 

 
Almennt fnuss út í heiminn
 
 
   
 
föstudagur, júlí 02, 2004
 
Dúdúrúdd. Jæja, þá er komið að ferðahelginni miklu. Já, ótrúlegt en satt þá ætla ég að fara að Skógum þessa helgi að skemmta mér. Ástæðurnar fyrir því eru tvær. Í fyrsta lagi mun ég ekki geta farið á verslunarhelgardjamm vegna próflesturs í ágúst, þannig að það er alveg eins gott að prófa þetta núna, og í öðru lagi er ég að fara með alveg ótrúlega sætan Hollending sem hefur aldrei farið í alvöru íslenska útilegu (enda bara búinn að vera hérna í sex mánuði). Ég er að vona í bjartsýni minni að veðrið verði gott, þar sem ég nenni ekki að vera köld og blaut alla helgina, en ef það gerist ekki ætli maður fari ekki seint af stað í kvöld og snemma af stað á sunnudaginn. Síðan eru sumir sem segja að maður eigi bara að drekka meira. Ég var einmitt að spá í því að kaupa heilar tvær kippur af bjór, en eftir að hafa drukkið eitt glas af rauðvíni og eitt glas af bjór í gær með þeim afleiðingum að ég varð frekar nett, ákvað ég að ein kippa væri örugglega meira en nóg yfir helgina. Síðan er ég að fara að keyra að Skógum, og vorkenni eiginlega Hollendingnum, því ég er ekki alveg komin með sjálftraust til þess að fara fram úr hægfara ökumönnum. Reyndar er ég hægfara ökumaður. En ég held að það komi ekki að sök á sunnudaginn, þar sem umferðin verður svo mikil að eina leiðin til að sjá hver er hægfara og hver hraðfara er óþolinmæðisvipurinn á fólki.
Hverjum datt annars í hug að halda Metallica-tónleika sama dag og fólk er að koma úr útilegu? Er það ekki bara ávísun á slys? Stjórnendur Metallica hefðu átt að vita betur. Vilja þeir í alvöru fá fólk sem er annaðhvort þunnt eða fullt eftir helgina í salinn til þess að slamma framan í hljómsveitina?? Það eru til betri leiðir til þess að losna við þynnku heldur en að reka hausinn í mann og annan. Sjáið þið ekki líka fyrir ykkur vatnsmagnið sem hljómsveitarmennirnir fá framan í og á sig þar sem flestir munu ábyggilega ekki hafa tíma til þess að þurrka á sér hárið áður en þeir fara á tónleikana? Greyin fara ábyggilega af landinu með þá hugsun að það rigni svo mikið á Íslandi að maður sé blautari á leiðinni út úr húsi heldur en á leiðinni inn í það. Síðan er eins gott að þeir séu ekki í fatnaði sem getur hlaupið, þar sem það gæti haft áhrif á raddstyrkinn. Þröngar gallabuxur verða nefnilega ennþá þrengri þegar þær eru blautar, og þrenging á réttum (röngum??) stöðum getur haft þau áhrif að þungarokkshljómsveit hljómar eins og Bee Gees á sýrutrippi. Ég vona að þeir fari a.m.k. að ætlast til þess að fólk syngi með, því eftir þessa helgi (kvöldvökur, öskur, áfengisdrykkja) mun ábyggilega meirihlutinn af fólkinu drekkja öllum salnum í hóstakjöltri. Nei, segi bara svona!

 

 
   
  This page is powered by Blogger, the easy way to update your web site.  

Home  |  Archives