Allir vildu Lilju kveðið hafa
 

 
Almennt fnuss út í heiminn
 
 
   
 
miðvikudagur, apríl 21, 2004
 
Já, ég lofaði víst öllum að láta heyra í mér eftir páska og var mjög ánægð að fá smá viðbrögð við seinkuninni þar sem sumir láta aldrei heyra í sér á síðunni minni (þeir taka það til sín sem eiga það!). Látum okkur sjá, hverju man ég eftir að hafa verið að aðhafast undanfarna mánuði?? Það hafa náttúrulega verið mikil verkefnaskil í skólanum þannig að ég hef mest megnis verið að vinna í þeim. Anima hefur náttúrulega tekið sinn toll líka en ég get lýst því yfir með ánægju að aðalafskipti mín af því félagi eru að verða yfirstaðin, þó að ég sé ekki alveg búin að segja skilið við það. Ég lét nefnilega hafa mig út í það að verða endurskoðandi Animu næsta ár, en sem betur fer gegnir hann einungis því hlutverki að fara yfir útgjöld Animu fyrir kosningar næsta ár, þannig að ég á að geta lært meira. Námið hefur setið dálítið á hakanum undanfarið en ég hef fulla trú á að þetta reddist. Allar glósur sem okkur vantar koma alltaf til okkar, annaðhvort í gegnum snillinginn og athyglisbrestssjúklinginn Andra eða Kjartan sem nýtur einskærrar heppni í öllu sem hann gerir. Smá dæmi: hann hefur ekki lært einn staf í persónuleikasálfræði og var farinn að hafa áhyggjur. Svo kíkti hann á tölvupóstinn sinn áðan og þar var bréf frá konu sem hafði glósað flest allt sem persónuleikasálfræðikennarinn hafði sagt. Hún sendi honum glósurnar sínar vegna þess að hann hafði sent henni glósurnar sínar í sögu sálfræðinnar um jólin. Kjartan lukkutröll!! Við erum heppin líka að hafa hann í kringum okkur. Hmm, ég ætti kannski að bæta við að hann er trúlofaður og með barn fyrir þá sem voru farnir að fá einhverjar hugmyndir!
Anima var með dúndrandi góða árshátíð og það má sjá myndir hér. Ég fékk fötin lánuð hjá Hrönn, vinkonu Ástu, og var mjög ánægð með útlitið. Ég fer þó sennilega seint aftur í svona bol, þar sem það lá einu sinni við slysi. Ég var sem sagt hálfhlaupandi á leiðinni inn á bað og labbaði fram hjá strák sem ég er búin að vera skotin í í smá tíma (en sem vildi mig ekki, aulinn). Ég var búin að eyða smá stund í að halda mér eins langt frá honum og ég gat en þurfti svo að ganga framhjá honum inn á snyrtingu. Ég rétti úr bakinu, hugsaði “Ég er falleg, ég er gáfuð og hann vissi ekki hverju hann var að hafna,” kreisti fram pínu bros þegar ég var komin nálægt honum og stökk inn á bað. Þegar ég leit í spegilinn þar inni kom í ljós að hann hafði örugglega séð forsmekkinn af því sem hann var að hafna þar sem bolurinn hafði færst til þannig að sást í hálft vinstra brjóstið. Ég tók þá ákvörðun að halda mig frá svona flegnum bolum á næstunni og gætti þess sérstaklega að meðalfjarlægðin á milli mín og þessa stráks væri hálfur salur afganginn af kvöldinu. Annars skemmti ég mér mjög vel.
Annars hefur allt gengið sinn vanagang, nám, leikfimi, svefn og djamm. Páskarnir voru rólegir og fóru í að sofa og japla á páskaeggjum. Aldrei þessu vant fengum við frekar mörg egg (fjögur nr. 3 og þrjú nr. 4) og voru allir komnir með nett ógeð eftir páskana. En sem betur fer endist ógeð á súkkulaði aldrei lengi hjá mér þannig að ég fékk að klára restina :o)

 

 
   
  This page is powered by Blogger, the easy way to update your web site.  

Home  |  Archives