Allt er þegar þrennt er!! Óheppnin síðan í seinustu viku hefur ákveðið að elta mig yfir í þessa viku líka, bara svona upp á fjörið. Ég nefnilega virðist hafa týnt símanum mínum í gærkveldi,
einhvers staðar á Laugaveginum!! Ég komst að þessari niðurstöðu eftir að hafa hringt (með símanum hennar mömmu) á alla staðina sem ég heimsótti í gær. Sem betur fer get ég notað peninginn, sem hefði átt að fara í jeppaviðgerðina, í símakaup. Ég ætla síðan að láta leita að hinum símanum. En málið með jeppann var að maðurinn sem átti hann sleppti mér lausri með þeim orðum að 5000 kall munaði hann engu til eða frá (enda ekki skrýtið með glænýjan jeppa) og það eina sem sást á jeppanum var oggu-pínulítið gat á lakkinu. Mér var stórlega létt, vægast sagt. En ég vona innilega að það bíði mín eitthvað stórkostlega skemmtilegt til þess að vega á móti allri þessari óheppni!
Nei, ég er ekki komin undir græna torfu, bara bókatorfu. Sæl, enn á ný, það er víst komið að "mánaðarlegu" bloggi. Ég er búin í vinnunni, byrjuð í skólanum og byrjuð í leikfimi. Fyrsti dagurinn var 15. janúar sem endaði á smá utanborgarferð um kvöldið þar sem ég skemmti mér með stjórn Animu. Daginn eftir (föstudagur) var svo vísindaferð (ég var komin heim klukkan ellefu) og kvöldið eftir var náttfatapartí hjá Önnu. Eftir að hafa drukkið þrjú kvöld í röð tók ég smá tékk á sjálfri mér og fannst ég vera komin aðeins of langt frá gömlu Lilju, þannig að ég ákvað að hætta að drekka í smá tíma. Ég var búin að gleyma hversu gott það er að geta farið heim á bílnum án þess að lykta eins og blautur sígarettustubbur og vakna endurnærð daginn eftir.
Á föstudaginn fór ég í vísindaferð upp í Orkuveitu með Animu sem endaði á Persónuleikunum 2004. Persónuleikarnir voru sem sagt þrautakeppni milli liða þar sem vegleg verðlaun voru í boði og ég held að allir hafi skemmt sér mjög vel. Ég hélt mér bara á barnum þar sem ég var ekki mikið fyrir mannleg samskipti þann dag (kem að því síðar) og fór heim um leið og ég gat. Þá var ég búin að vera á hlaupum í allan dag og komin á síðasta snúning. Restin af helginni hefur farið í að læra og slappa af.
Annars var eintóm óheppni ástæðan fyrir slæmu skapi á föstudaginn. Ég nefnilega lenti í því á fimmtudaginn að missa bílhurð í hliðina á glænýjum jeppa, þannig að það myndaðist pínulítil dæld og góða ég, sem skildi eftir skilaboð á rúðunni hans, fékk að vita að það myndi kosta 7500 kr að láta laga hana. Allt í lagi með það. Síðan á föstudaginn var ég tekin af löggunni fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu. Þar sem ég fékk svo mikið áfall við að vera tekin af löggunni gat ég ekki imprað upp úr mér afsökun fyrir brotið og þeir enduðu á því að skrifa "Vildi ekki tjá sig" í skýrsluna eins og ég væri stórglæpamaður! Það fer sennilega 15000 kall í sektina. Eftir að hafa lent í þessu ásamt því að vera frekar stressuð fyrir Persónuleikana (var í reddingum) gat ég ekki haldið mér ánægðri mikið lengur og brotnaði þrisvar sinnum saman, einu sinni í bílnum, einu sinni með Ingu og einu sinni upp í Orkuveitu, á meðan pabbi hélt utan um mig. Ég var víst frekar viðkvæm þann daginn og var fegnust þegar ég fékk að draga sængina upp fyrir haus. En lífið gengur sinn vanagang og ég vona alveg innilega að á móti þessari óheppni komi mikil heppni. Þetta reddast!!