Híhí, stimpilklukkan í vinnunni söng afmælissöng fyrir mig þegar ég stimplaði mig inn. Ég er frekar ánægð með það :)
Jæja, það er víst komið að jólauppgjöri, sem er vel við hæfi á þrettándanum. Jólin liðu einstaklega fljótt þetta árið með venjulegum fjölskyldusamkomum og ofáti. Reyndar erum við í fjölskyldunni þeirrar gæfu aðnjótandi að það eru ekki mörg fjölskylduboð um jólin, reyndar aðeins eitt fyrir utan hið árlega ættarjólaball. Það hins vegar kom ekki í veg fyrir að ég hámaði í mig konfekt alla daga í vinnunni. Þess vegna, ef ég hef bætt eitthvað á mig yfir hátíðarnar, er það öllu fremur vinnuáti að þakka. Hins vegar mun sú aukaþyngd ekki sjást neitt fyrir aukakílóunum sem ég bætti á mig í jólaprófunum. En nóg um það.
Þessi jól verða þekkt sem bollajól hjá mér, þar sem ég fékk heila þrjá bolla í jólagjöf. Það mætti halda að ég
eigi að fara að safna í búið, þó að borðbúnaður með ýmsar yfirlýsingar um hvers vegna karlmenn séu ómögulegir sé ekki efst á óskalistanum. Það fyrir utan fékk ég veski, sokka, bók um goðafræði frá ýmsum löndum, bók um hvernig eigi að ná í karlmenn (skemmtileg andstaða við bollann), voða sætt jólatrésskraut, náttkjól, sængurföt og kort frá ömmu á Akureyri með pening í sem olli 2 mínútna grátkasti hjá okkur systrunum. Allt þetta og fleira varð til þess að aðfangadagur og jóladagur voru einstaklega ljúfir og góðir.
Jólaballið var allt í lagi. Það er hins vegar hrein og bein staðreynd að svona ættarjólaböll eru ekkert annað en afrekasýning, þar sem allir gorta sig af nýjustu afkvæmum/maka/jólagjöfum. Samanburðurinn getur gengið svo langt að úr verður nokkurs konar fegurðarsamkeppni þar sem verðlaunin eru einlæg athygli allrar fjölskyldunnar í a.m.k. einn dag. Það er skrýtið að mótmælendur fegurðarsamkeppna hafi ekki mótmælt svona jólagripasýningum fyrir löngu síðan. Það er síðan svo í ættinni minni að þeir sem leggja ekki sitt af mörkum fyrir útvíkkun ættarinnar, þ.e. þessir einhleypu, barnlausu, síngjörnu og vandamálalausu einstaklingar, eru merktir sem "óalandi," "óferjandi," "það hlýtur eitthvað að vera að honum/henni" og "geymum hann/hana þangað til næsta ár." Þessir einstaklingar eru litnir hornauga af frænkum og frændum sem hlaupa á milli grenjandi ungviða eða nýrra para og vekja almennt hroll hjá hörðustu fjölskyldusinnum. Enda ákvað ég (og lét systur mína vita sem var svo góð að koma skilaboðunum áfram til pabba og mömmu) að ég myndi ekki fara aftur á árlega ættarjólaballið án þess að vera með væntanlegan eiginmann, litla eftirmynd af sjálfri mér eða a.m.k. heilbrigðan skammt af áfengisvandamáli til þess að vekja athygli á mér, því eins og er hef ég ekkert þangað að gera nema sníkja nammi af jólasveinunum.
Gamlaárskvöld var frábært. Það byrjaði á ljúffengum kvöldmat í faðmi fjölskyldunnar, leiddist út í sjónvarpsgláp eftir kvöldmat og hefðbundna undrun á sprengjuæði Íslendinga. Eftir miðnætti brunaði ég í partý til Ástu og Ívars þar sem ég skemmti mér einstaklega vel til hálfsex um morguninn, ef frá er talið stutt stopp í öðru partýi þar sem ég var næstum því sofnuð. Ég var sérstaklega þakklát fyrir það að hafa ekki drukkið áfengi það kvöld þar sem ég slapp við að greiða stórfé í leigubíl og vaknaði heldur ferskari en aðrir. Nýársdagur fór svo í sjónvarpsgláp, enda hafði ég ekki orku í annað.
Að öðru leyti hef ég bara verið að vinna og mun gera það þangað til 15. janúar.
Gleðilegt nýtt ár, öll sömul og vonandi verður 2004 ykkur gott. Mér finnst ég verða að feitletra einu sinni að
mikið skelfing finnst mér gott að 2003 er búið!