Allir vildu Lilju kveðið hafa
 

 
Almennt fnuss út í heiminn
 
 
   
 
föstudagur, nóvember 28, 2003
 
Jæja, þá er tími svita, tára og heilmikils sælgætisáts runninn upp. Ég á að sjálfsögðu við prófatíma Háskólans. Inni í honum er einnig langar lærdómsnætur, reglulegar heimsóknir í skyndibitastaði bæjarins og dagar þar sem maður fer varla út nema til þess að komast í Háskólann eða úr honum. Næstu 22 daga mun líf mitt snúast um bækurnar fyrir framan mig. En ég fæ líka mína umbun: heila 26 daga í jólafrí!! Híhíhí, og ég fæ líka að sjá Lord of the Rings á undan öllum öðrum!!

þriðjudagur, nóvember 25, 2003
 
Undanfarið hef ég verið að velta fyrir mér hverju ég hafi gleymt þegar ég fór úr menntaskóla yfir í háskóla. Ég komst að þeirri niðurstöðu að í staðinn fyrir að hafa óbilandi bjartsýni þá er ég komin í ástand sem ég vil kalla “ekki-svartsýni.” Það myndi e.t.v. fáir gera greinarmun á þessu tvennu en þó er þarna munur sem ég skynja. Bjartsýni hefur í för með sér að hlutirnir séu dásamlegir, að allt fari á sem bestan veg og að allt sé af hinu góða. Ekki-svartsýni er að hlutinir eru ekki slæmir, að allt fari eins og það fari og að það sé hægt að bregðast við öllum aðstæðum. T.d. myndi bjartsýn manneskja segja að glasið væri hálf-full, en “ekki svartsýn” manneskja myndi segja að glasið væri hálft. Sumir myndu segja að þessi skoðun sé ekki slæm, að þetta er bara annað orð yfir raunsæi og að þetta væri rétta leiðin til að horfa á lífið. En hvað er að bjartsýni? Bjartsýni gerir manni kleift að takast vel á við áföllin í lífinu, hvort sem þau eru stór eða lítil og einnig að vita að þau munu enda einhvern tímann.
En reyndar mætti segja að ansi margir hafi “ekki” trú. Í staðinn fyrir að segja “ég á þetta skilið” segir fólk “ég á þetta ekki skilið.” Í seinustu viku reis þjóðin upp og sagði að hún ætti ekki skilið að tveir menn fengju 900 milljónir í sinn hlut fyrir hlutabréfakaup í Kaupþingi. Nú þegar þeir hafa fallið frá þessari kröfu sest þjóðin niður aftur og gleymir þessu. Hún gleymir einnig að segja hvað hún vill gera við peningana og hvort hún vilji breytt ástand í bankakerfinu.
Ég las einhvern tímann að það fælust engin skilaboð í “ekki” setningum, að það væri ekki hægt að læra neitt af þeim. Fólk lærir aðeins þegar það notar viljayfirlýsingar og jákvæðar setningar. En margir Íslendingar vita þetta ekki eða hafa gleymt þessu. “Ekki” setningar eru í raun það sem við köllum nöldur, þ.e. “ég vil ekki, get ekki, hef ekki áhuga á.” Og við skulum bara viðurkenna það að Íslendingar eru nöldurþjóð. Við segjum að þessi eða hinn ráðherra ætti ekki að fá svona miklar tekjur, að það ætti ekki að byggja á þessum stað eða að umferðin sé fullkomlega óþolandi á morgnana (ekki-setning í breyttu formi). Fáir koma með uppástungur um breytingar. Það fylgir aldrei sögunni hversu háar tekjur ráðherrarnir eiga skilið, hvað við gætum gert í staðinn við peningana sem þeir fá eða hvaða leið við gætum farið á morgnana í staðinn fyrir að sitja föst í umferðarteppu. Það er auðvitað ekki hægt að setja jafnaðarmerki á milli þess að dreyma og framkvæma þá drauma, en er ekki betra að láta sig dreyma um betri tíma heldur en að sætta sig við þá slæmu?
Það er einkennilegt hvað fullorðinsárin hafa slæm áhrif á okkur. Lífið er erfitt hjá mörgum en er það nógu góð ástæða til þess að fara í “ekki” ástand? Atvinnulaus, einstæð móðir sem segir við sig að hún hafi ekki efni á hlutunum vegna þess að hún á einfaldlega ekki peningana til þess lítur raunsætt á málin, en hefur hún það eitthvað verra ef hún segir “þetta reddast, ég hef efni á þeim seinna”? Við höfum draumana lengur ef við höldum í bjartsýni en “ekki-svartsýni” lætur okkur gleyma þeim. Fullorðið fólk fær sinn skerf af skorti, en af hverju leyfum við honum að taka frá okkur draumana og bjartsýnina?
Ég er orðin þreytt á því að sjá aðeins hálft vatnsglas, ég vil sjá það sem hálf-fullt. Þess vegna ætla ég í “ekki-svartsýnisbindindi” og ekki veitir af fyrir jólin. Því óska ég ykkur gleðilegrar bjartsýni og megi ykkur hlotnast framkvæmdavilji fyrir alla ykkar drauma. Ég veit einnig, vegna þessarar nýju bjartsýni minnar, að þið hljótið bæði tvö. J

mánudagur, nóvember 24, 2003
 
ÉG ER GRIBBA!! Það er víst nýjasta gælunafnið mitt hérna í stjórn Animu. Þannig er nefnilega mál með vexti að það var bjórkvöld á laugardaginn í salnum sem við leigjum. Ég er ábyrgðarmanneskja fyrir salnum og á til að hafa áhyggjur af ýmsum hlutum, eins og þeir sem þekkja mig hafa kynnst. Inni í því eru áhyggjur af því að fólk komi sér ekki út úr salnum áður en það verður of fullt. Þessar áhyggjur mínar blönduðust við reiði og bjór sem endaði á því að ég leit út eins og björn sem hafði nýlega verið vakinn af vetrarblundi sínum. Ég náði að henda einni stelpu á handriðið á svölunum (en hún stóð rétt fyrir utan hurðina sem ég var að opna) og ég fékk að vita að hún og vinkona hennar höfðu læðst út á meðan þær gátu. Kjartan fann sig knúinn til þess að faðma mig áður en ég spryngi. En hvað á maður að gera eftir að það er búið að stela 10 kílóa pottaplöntu (sem fannst svo í næsta garði)?? Æ, what the heck! Ég heiti Lilja og ég er gribba. Betra er að taka það hlutverk að sér heldur en að vera gólfmotta. Ég bara vona að ég viti hvenær réttu aðstæðurnar eru til þess að kalla þá hlið fram.

sunnudagur, nóvember 23, 2003
 
Jæja, það er víst kominn tími á að láta vita af sér. Seinustu vikur hafa verið svolítið önnum kafnar, Animu-lega og námslega séð. Fullt af ritgerðum sem á að skila og svona. En ég get ekki kvartað, er búin að standa mig vel miðað við hvað ég læri lítið. Síðan eru jólaprófin á næsta leyti og eftir þau er ég hálfnuð með sálfræðinámið í háskólanum. Ég er farin að hlakka svolítið til að fara út aftur til útlanda og vona að ég geti kíkt út í nánustu framtíð. En það sem ég hef verið að gera undanfarnar vikur...
Helgarnar hafa farið í djamm og virkir dagar í námslestur og undirbúning fyrir djamm. Fyrstu helgina í nóvember fór Anima með hjúkrunarfræðinemum af landi brott alla leið til Eyja. Það var virkilega skemmtileg ferð þar sem við fórum á Stuðmannaball á laugardagskvöldið og fengum að tjútta svolítið. Helgina þar á eftir (8.-9. nóvember) var ég bara róleg, aldrei þessu vant, og fór bara á Matrix með Ingu systur. Ég varð fyrir vonbrigðum með hana, en ég segi ekki meira ef vera kynni að það eru einhverjir þarna úti sem hafa ekki séð hana. Það eina merkilega sem gerðist þá helgi var að ég náði að keyra rauðu Octövuna okkar upp á gangstétt þannig að það datt undan henni stuðarinn. Ég náði að festa hann aftur á en ákvað að það yrði langt þangað til ég myndi taka bílinn aftur. Pabbi og mamma æstu sig ekki neitt en ég var alveg miður mín. Seinustu tvær helgar hef ég svo farið út að skemmta mér og dansað pínulítið.
Mér finnst mjög fyndið hversu mikið ég hef breyst á þessu ári hvað varðar skemmtanalífið. Áður fyrr fór ég kannski á sex mánaða fresti út að skemmta mér en núna fer ég hverja helgi. Ég held samt að þetta sé einungis út af því að ég er í stjórn Animu. Við reynum að gera eitthvað fyrir fólk um hverja helgi og það þýðir að stjórnin verður að vera á staðnum líka. Enda er ég að vona að næsta ár geti ég slappað aðeins af og sinnt náminu meira. En ég er a.m.k. búin að læra um geðklofa, persónuleikaraskanir og hvernig eigi að framkvæma rannsóknir. Þetta er allt á réttri leið.

 

 
   
  This page is powered by Blogger, the easy way to update your web site.  

Home  |  Archives