Virðing, nr.1,2 og 3
Undanfarna daga hef ég verið að pirra mig á ákveðnum einstakling í skólanum, án þess þó að vita hvað það er í fari hans sem fer svona í taugarnar á mér. Ég hef þó gert mitt besta til að sýna honum þá kurteisi sem hann á skilið, með misjöfnum árangri, þar sem ég veit að þessi aðili á ekki skilið að ég gargi á hann, sérstaklega ekki ef pirringurinn á rætur sínar að rekja til míns mánaðarlega hormónaflipps. Hins vegar áttaði ég mig á því í gær að ástæðan fyrir pirringnum (önnur en bara “sá tími mánaðarins”) væri fyrst og fremst sú að þessi aðili ber enga virðingu fyrir skoðunum annarra. Hann hreykir sér af því að reyna að taka öndverða skoðun við viðmælendur sína, sem í sjálfu sér er allt í lagi, en notar síðan þá afstöðu til þess að rífa hinn aðilann niður. Allir sem hafa einhverja aðra afstöðu en hann hafa algerlega rangt fyrir sér og hann er ekki feiminn við að láta það í ljós.
Eftir að hafa áttað mig á þessari staðreynd byrjaði ég að velta fyrir mér erfiðleikunum við að virða þá manneskju sem hefur öndverða skoðun á við mann sjálfan. Þá á ég ekki einungis við huglægar skoðanir, heldur einnig þá sem að búa öðruvísi en ég, líta öðruvísi út, hafa aðra trú, o.s.frv. Það er alls ekki auðvelt að virða þann sem er allt öðruvísi í hugsanahætti en maður sjálfur. Eða hvað? Ég er búin að kynnast þó nokkrum sem hafa ekki sömu skoðanir og ég (t.d. þessi aðili hér fyrir ofan), en það breytir því ekki að ég ber virðingu fyrir þeim. Allir hafa ástæður fyrir skoðunum sínum, og það er á engan hátt mitt hlutverk að dæma eða leiðrétta þær (þó að það sé stundum svolítið erfitt). Það er ekki fyrr en að þessir aðilar nota skoðanir sínar til að gera lítið úr öðrum sem ég fer að segja eitthvað.
Ég þykist þó ekki vera heilög og á það til að slúðra eða hlæja að óförum annarra þegar ég fæ tækifæri til þess. Ég vona hins vegar að allir í kringum mig fái þá virðingu frá mér sem þeir eiga skilið. Auðvitað á ég erfiðara með að virða suma heldur en aðra, en það stafar venjulega af því að þeir taka þátt í athöfnum sem skaða þá eða aðra.
Allir vilja virðingu og sumir leggja á sig ómælt erfiði til að fá hana, t.d. fara í lýtaaðgerðir, klífa fjöll eða leggja andstæðing að velli. Lélegt sjálfsmat stafar stundum af því að fólki finnst það ekki fá nægilega virðingu og stundum meiðir það sjálft sig út af virðingarleysi á líkama sínum. Með þetta allt í huga skrifaði ég niður tvær reglur sem ég mun gera mitt besta til að muna (enda sennilega á því að tattúvera þær á handarbökin):
1. Bera skaltu virðingu fyrir náunga þínum, jafnvel þó að skoðanir hans samræmist ekki þínum eigin.
2. Einungis ef skoðanir náunga þíns valda honum eða öðrum skaða skaltu reyna að breyta þeim.
Það eina sem ég stend frammi fyrir núna er að ég þarf einhvern veginn að koma því til skila við þennan aðila að mér finnst hegðun hans ekki viðeigandi fyrir verðandi sálfræðing, án þess að valda fjaðrafoki. Eða ætti ég að skrifa þetta upp á fyrirtíðaspennu og þegja? Álit ykkar væri vel þegið.