Allir vildu Lilju kveðið hafa
 

 
Almennt fnuss út í heiminn
 
 
   
 
þriðjudagur, október 07, 2003
 
Virðing, nr.1,2 og 3
Undanfarna daga hef ég verið að pirra mig á ákveðnum einstakling í skólanum, án þess þó að vita hvað það er í fari hans sem fer svona í taugarnar á mér. Ég hef þó gert mitt besta til að sýna honum þá kurteisi sem hann á skilið, með misjöfnum árangri, þar sem ég veit að þessi aðili á ekki skilið að ég gargi á hann, sérstaklega ekki ef pirringurinn á rætur sínar að rekja til míns mánaðarlega hormónaflipps. Hins vegar áttaði ég mig á því í gær að ástæðan fyrir pirringnum (önnur en bara “sá tími mánaðarins”) væri fyrst og fremst sú að þessi aðili ber enga virðingu fyrir skoðunum annarra. Hann hreykir sér af því að reyna að taka öndverða skoðun við viðmælendur sína, sem í sjálfu sér er allt í lagi, en notar síðan þá afstöðu til þess að rífa hinn aðilann niður. Allir sem hafa einhverja aðra afstöðu en hann hafa algerlega rangt fyrir sér og hann er ekki feiminn við að láta það í ljós.
Eftir að hafa áttað mig á þessari staðreynd byrjaði ég að velta fyrir mér erfiðleikunum við að virða þá manneskju sem hefur öndverða skoðun á við mann sjálfan. Þá á ég ekki einungis við huglægar skoðanir, heldur einnig þá sem að búa öðruvísi en ég, líta öðruvísi út, hafa aðra trú, o.s.frv. Það er alls ekki auðvelt að virða þann sem er allt öðruvísi í hugsanahætti en maður sjálfur. Eða hvað? Ég er búin að kynnast þó nokkrum sem hafa ekki sömu skoðanir og ég (t.d. þessi aðili hér fyrir ofan), en það breytir því ekki að ég ber virðingu fyrir þeim. Allir hafa ástæður fyrir skoðunum sínum, og það er á engan hátt mitt hlutverk að dæma eða leiðrétta þær (þó að það sé stundum svolítið erfitt). Það er ekki fyrr en að þessir aðilar nota skoðanir sínar til að gera lítið úr öðrum sem ég fer að segja eitthvað.
Ég þykist þó ekki vera heilög og á það til að slúðra eða hlæja að óförum annarra þegar ég fæ tækifæri til þess. Ég vona hins vegar að allir í kringum mig fái þá virðingu frá mér sem þeir eiga skilið. Auðvitað á ég erfiðara með að virða suma heldur en aðra, en það stafar venjulega af því að þeir taka þátt í athöfnum sem skaða þá eða aðra.
Allir vilja virðingu og sumir leggja á sig ómælt erfiði til að fá hana, t.d. fara í lýtaaðgerðir, klífa fjöll eða leggja andstæðing að velli. Lélegt sjálfsmat stafar stundum af því að fólki finnst það ekki fá nægilega virðingu og stundum meiðir það sjálft sig út af virðingarleysi á líkama sínum. Með þetta allt í huga skrifaði ég niður tvær reglur sem ég mun gera mitt besta til að muna (enda sennilega á því að tattúvera þær á handarbökin):
1. Bera skaltu virðingu fyrir náunga þínum, jafnvel þó að skoðanir hans samræmist ekki þínum eigin.
2. Einungis ef skoðanir náunga þíns valda honum eða öðrum skaða skaltu reyna að breyta þeim.
Það eina sem ég stend frammi fyrir núna er að ég þarf einhvern veginn að koma því til skila við þennan aðila að mér finnst hegðun hans ekki viðeigandi fyrir verðandi sálfræðing, án þess að valda fjaðrafoki. Eða ætti ég að skrifa þetta upp á fyrirtíðaspennu og þegja? Álit ykkar væri vel þegið.

sunnudagur, október 05, 2003
 
Hafið þið tekið eftir hvað Íslendingar eru fyndnir snemma á morgnana þegar umferðarteppan er verst? Dagfarsprúðar manneskjur breytast í önuglynda ökuníðinga í tuttugu mínútur og allir sem sitja á sama bíl verða að Fúlum-á-móti. Þetta sést best á því þegar ökumaður bílsins fyrir aftan þig tekur fram úr og horfir illilega inn í bílinn til þín, einungis til þess að sjá hvaða hægfara hálfviti situr við stýrið.
Ég er ekki vön að vera stressuð í bíl, og þar sem ég er ekki handhafi græna eða rauða kortsins þetta árið reyni ég að nota ferðina með mömmu á morgnana. Ég hef fengið að sitja í oft og mörgum sinnum, en ég virðist aldrei ætla að venjast ökupersónuleikanum hennar sem birtist. Við systurnar (María og ég) náum alltaf einhvern veginn að koma út tveimur mínútum eftir að mamma fer út í bíl og við þurfum oft að leggja svolítið á okkur til að festa beltið á meðan hún brunar út úr innkeyrslunni. Þá er hún alla jafna svolítið stressuð, en venjuleg. Svo þegar við erum komnar á Gullinbrúna kemur hinn persónuleikinn í ljós. Í staðinn fyrir venjulegt spjall um daginn og veginn fæ ég að heyra blótsyrði sem einungist sjómenn bera sín á milli. Þar sem mamma er ekki vön að segja „helvítis hægfara heimski fituhjassi sem veit ekki muninn á gírstönginni og typpinu á sér,“ velti ég stundum fyrir mér hvort hún hafi stundað sjóinn á tímabili. En mamma er samt mjög góður ökumaður og ég hef tekið eftir því að hún kemst í betra skap þegar við erum alveg að verða komnar í vinnuna hennar.
Hraðinn er einnig allt annar á morgnana heldur en á daginn. Þá er ég er afskaplega þakklát fyrir bílbeltið (þegar ég loksins kem því á mig) þar sem allir morgunökumenn keyra eins og seinasti maður í vinnuna þurfi að borga bensínið fyrir alla Reykjavíkurbúa. Ef einhver dirfist að keyra undir 110 í Ártúnsbrekkunni á milli 7:45 og 7:55 á hinn sami skilið að vera skotinn, hengdur eða a.m.k. dreginn eftir götunni á milli heimilis og vinnustaðar þar til hann finnur muninn á 70 og 110 km/klst á fjölda steina í rassinum.
Það sem mér finnst þó fyndnast er hvernig við leitum eftir stereótýpum í umferðinni. Ég vakti máls á því hér fyrir ofan að bílstjórar eiga það til að horfa inn um gluggann á næsta bíl til þess að athuga hver sitji við stýrið. Hægfara ökumenn eru flokkaðir: annaðhvort er þetta eldgamall karl sem sér ekki mun á ljósastaur og sleikjó eða kvenmaður. Ég verð að viðurkenna að sem kvenmaður vísa ég alltaf í eldgamla karlinn (já, meira að segja ég flokka þá niður) og þykist viss um að margir karlmenn nota kvenmannsskýringuna. Þess vegna kemur það mér alltaf jafnmikið á óvart ef að það er ungt fólk við stýrið. En þá bara kann það ekki að keyra eins og almennilegt fólk (með öðrum orðum, við sjálf, þar sem enginn kann að keyra nema við).

 

 
   
  This page is powered by Blogger, the easy way to update your web site.  

Home  |  Archives