Allir vildu Lilju kveðið hafa
 

 
Almennt fnuss út í heiminn
 
 
   
 
föstudagur, september 19, 2003
 
Aldrei hef ég vitað til þess að endurnar á tjörninni geta orðið saddar. En miðað við magnið af brauði sem við vorum með var það svo sem ekki skrýtið. Við sem sagt fórum fjögur (Kjartan, Sigga, Brynjólfur og ég) með afganginn af pylsubrauðinu frá föstudagskvöldinu (nýnemakvöld) og gáfum fuglunum á tjörninni. Það væri nú ekki frásögur færandi nema fyrir þær sakir að þetta voru einir 15 pokar (x5=hellingur af brauði). Reyndar fór megnið af brauðinu upp í máva, sem rifu það frá öndunum og tættu það í sig. Það er alveg ótrúlegt hvað það er ennþá skemmtilegt að sjá endurnar gleypa í sig brauðið eftir að gert þetta í 20 ár. Maður greinilega heldur fast í barnið í sér. En nóg um fugla.
Eins og áður sagði var frekar mikill afgangur frá nýnemakvöldinu, þar sem það mætti u.þ.b. helmingur þess sem við bjuggumst við af fólki. Kvöldið samt heppnaðist vel og má sjá myndir frá því á heimasíðu Animu. Daginn eftir þurftum við að þrífa salinn og það tók um það bil fjóra tíma. Það hjálpaði ekki mikið að fá geitunga inn í salinn, þar sem við öll vorum frekar smeyk við þá. Kjartan tók loks af skarið eftir að hafa gargað á þá í tíu mínútur og hóf fjöldamorðin. Sigga og ég vörðum okkur hins vegar með peningakassa og skúringamoppu og hlupum fram í hvert einasta skipti sem einn af þeim kom nálægt okkur. En við kláruðum loksins og ákváðum að fagna því með pizzu.
Mánudagurinn var hins vegar öllu verri þegar kom að því að fara með dósirnar í endurvinnslu. Við Sigga vorum voða duglegar og náðum í fjóra poka af bjórdósum sem við höfðum skilið eftir úti á svölum í salnum. Við drógum þá niður í bíl og höfðum opnað skottið þegar tveir geitungar mættu á svæðið (sennilega út af bjórlyktinni). Ef að það hefði einhver litið út um gluggann þá þá hefði hann séð tvær stelpur hlaupandi fram og aftur meðfram bílnum, togandi í úttroðna, svarta ruslapoka og skellandi hurðum á bílnum. Að lokum ákvað ég að nú væri komið nóg, drap annan þeirra, skellti pokunum inn í bíl (ásamt Siggu) og Sigga keyrði síðan af stað. Á leiðinni var Sigga einkennilega hokin í bílnum, sem hún útskýrði með því að hún væri svona til þess að vera eins langt frá ruslinu og hún gæti, ef vera kynni að það leyndist geitungur innan um pokana. Við vorum vægast sagt fegnar að losna við ruslið úr bílnum og að geta sagt skilið við salinn í bili.
Í kvöld verður svo kosningakvöld á Viktor á vegum Animu og annað kvöld er ég að fara í afmæli til Ingu systur. Ef einhver hefði sagt við mig fyrir þremur árum síðan að ég myndi bæta mér upp djammleysi undanfarinna ára á háskólaárum mínum hefði ég hlegið hátt (nei, reyndar ekki hlegið, bara brosað og hrist hausinn yfir vitleysunni í manneskjunni). En svo lengi lærir sem lifir. Ég er meira að segja búin að finna uppáhaldsskemmtistaðinn minn.

 

 
   
  This page is powered by Blogger, the easy way to update your web site.  

Home  |  Archives