Úff, þvílík vika! Það er búið að vera vitlaust að gera hjá okkur sem eru í stjórn Animu. Fyrir utan að þurfa að kynna félagið fyrir 1. árs nemum þá höfum við þurft að hringja út um allan bæ að redda tilboðum. Sigga og ég erum búnar að ná undraverðum árangri hvað það varðar, þar sem við höfum náð tilboðum á ljósakortum, pizzum, kaffi og meira að segja nammi. En svo hefur Kjartan, formaður Animu einnig staðið sig vel þar sem hann er að ná tilboðum við skemmtistaði borgarinnar, t.d. Viktor, Nelly's og Mekkasport (sem er víst skemmtistaður). Það borgar sig að vera í sálfræði :) Því miður hef ég verið á tauginni út af litlum tíma aukareitis fyrir lærdóm, en það lagast vonandi á næstu vikum. Þetta er nú einu sinni bara fyrsta vikan.
Ég fékk alveg svakalega skemmtilegan gest inn til mín í gærmorgun. Ég þurfti að skipta um föt og var komin að fataskápnum mínum þegar ég sá eitthvað hreyfast á gólfinu. Ég leit niður og gargaði hátt og snjallt því það var geitungur á gólfinu. Sem betur fer var hann bara skríðandi því ég hefði hlaupið gegnum hurðina (þ.e. gert stórt, Liljulaga gat á hurðina til að komast út) ef hann hefði flogið. Ég var snögg að ná mér í upprúllað dagblað til þess að berja hann. Ég held að hann hafi drepist eftir tvö högg en ég barði hann þrisvar sinnum í viðbót til þess að vera viss. Svo einu sinni enn til að koma í veg fyrir allar ranghugmyndir hjá honum (ef hann væri bara að þykjast vera dauður) að ég væri ekki hættuleg. Segið þið svo að maður sé ekki með ofsóknaræði.
Ég hef verið voða dugleg að fara í leikfimi þessa viku. Ég hef farið með Hauk annan hvern dag í Sporthúsið til þess að koma mér í form. Ég byrjaði á mánudaginn og fór í tvöfaldan tíma. Það er óhætt að segja að ég hafi verið þreytt daginn eftir, enda fékk ég nokkrum sinnum að heyra að ég væri þreytuleg. En það er fyndið hvað þolið er fljótt að koma þar sem ég er ekki nærri því eins þreytt í dag eftir tvöfaldan tíma í gær. En dagurinn er bara nýbyrjaður.
Fyrsti skóladagurinn, takk fyrir. Mér finnst þetta alveg yndislegt. Ég var mætt í háskólann um níuleytið, keypti allar bækurnar á kortéri og var mætt í tíma fimm mínútum síðar. Mér fannst nefnilega ómögulegt að mæta án einhverra bóka í tíma. Tíhí, ég elska að kaupa bækur.
Annars var helgin hjá mér æðisleg. Föstudagurinn fór í þrif með Siggu í Animuherberginu niðri í skóla. Við tókum til af mikilli samviskusemi, þrátt fyrir skríðandi hangikjöt inni í ískáp og kaffi sem var farið að minna á frumsúpu lífsins. Eftir að hafa eytt fimm tímum í þessu blessaða loftlausa herbergi fannst okkur við hafa unnið til bjórs og pizzu svo að við ákváðum að fara heim, þvo af okkur rykið og hittast síðan í strætó nokkrum tímum síðar. Með honum fórum við niður á Hlemm þar sem keypt var Devito's pizza (mmmm) og var hún borðuð heima hjá kærasta Siggu sem átti heima rétt hjá. Í stað hins margfræga Coka Cola drukkum við bjór með og nutum þess að hafa gert eitthvað virkilega nytsamt yfir daginn. Anna panna bættist í hópinn stuttu seinna og við ákváðum að skella okkur niður í bæ eftir eitt stykki drykkjuleik og töfrabragð. Við enduðum inni á Hverfisbarnum þar sem við nutum ljúfra drykkja og góðrar tónlistar sem hægt var að dilla sér við. Ég þarf vafalaust ekki að taka það fram að ég var farin að finna frekar mikið á mér enda var gólfið farið að bylgjast svolítið undir mér. En ég lét það ekkert á mig fá, dansaði eins og vitleysingur og stakk frá þremur strákum sem voru á eftir mér (kolvitlausum Ítala, hjólgröðum Ameríkana og Íslending sem ég heyrði ekkert í)! Sigga lét sig hverfa upp úr hálfþrjú, enda golfmót hjá henni daginn eftir en Anna og ég héldum áfram að skemmta okkur. Um fjögurleytið var okkur þó farið að leiðast og skelltum okkur út. Þá vildi svo skemmtilega til að fyrir utan var strákur sem mér hefur alltaf fundist svakalega sætur og þar sem mín var svona skemmtilega drukkin ákvað ég að segja honum það! Ég labbaði upp að honum, pikkaði í hann, skellti svo fram "Þú ert alveg ofsalega sætur" og labbaði í burtu. Anna fékk áfall og skammaði mig fyrir að brjóta samskiptareglur kynjanna. Hún labbaði meira að segja upp að næstu sætu strákum sem hún fann og spurði út í þetta mál. Mér til ómældrar gleði tóku þeir upp hanskann fyrir mig og sögðu að þeir hefðu ekkert á móti því ef þeir fengju sömu upplýsingar. Í sæluvímu minni yfir afstöðu þeirra þakkaði ég þeim kærlega fyrir og flutti þeim sömu skilaboð, þ.e. að mér fyndist þeir vera frekar sætir, en þá var Önnu nóg boðið og dró mig í burtu. Mér var samt slétt sama og enn þann dag í dag skammast ég mín ekkert (mikið).
Laugardagurinn var fremur rólegur, enda var ég mjög þreytt og langaði ekki mikið til að fara úr rúminu. Þó náði ég að fara aðeins á flakk með Ingu systur og leita að leikfimisfötum. Svo fór ég á smá MR-bekkjarmót um kvöldið en var fremur stutt þar sem ég var farin að dotta ofan í vatnsglasið.
Sunnudagurinn var góður líka. Við systurnar fórum á flakk í Smáralindina, Kringluna og Ikea og enduðum svo á því að fara á snyrtivörukynningu til Ólafíu, vinkonu Ingu Hrefnu. Næstu helgi verður sennilega aðeins meira að gera í skólamálum þar sem rekstur Animu virðist vera aðeins viðameira verkefni en ég átti von á sem og að námskeiðin virðast þyngri :os. En þetta reddast, það gerir það alltaf! :o)