Ég held að þetta hafi aldrei gerst áður hjá mér. Vikan aðeins hálfnuð og það er tvennt búið að gerast sem má skrifa á hreina og beina óheppni. Fyrst var hálfu hjóli stolið af mér (reyndar hjólið hennar Ingu en ég var á því) og svo næ ég að misstíga mig skemmtilega illa í leikfimi. Ég held fast í þá heimspeki að ég sé óheppin vegna þess að ég eigi eftir að verða heppin eftir það og miðað við seinustu daga á ég líklegast von á lottóvinning á laugardaginn.
Sagan á bak við hjólið er að ég fór hjólandi í sund á mánudaginn. Svo eftir að hafa verið um þrjú kortér í sundi, sem voru meðal annars notuð í áætlanagerð um að fara í bakaríið eða í ísbúðina á eftir, kom ég upp úr aðeins til þess að sjá að afturdekkinu, ásamt tannhjólinu, hafði verið stolið. Sem betur fer hafði ég læst hjólinu því vafalaust hefðu dónarnir tekið restina líka. Eftir að hafa litast um eftir dekkinu og spurt starfsfólkið þurfti ég svo að labba heim með hjólið í fanginu. Það er vafalaust auðvelt að ímynda sér upplitið á gangandi vegfarendum þegar ég gekk framhjá með hjólið (ég gat ekki reitt það vegna þess að ég náði að meiða mig á því). Sem betur fer var ekkert allt of dýrt að kaupa nýtt dekk, umgjörð og tannhjól.
Svo núna áðan þá fór ég í mína venjulegu leikfimi í World Class þar sem ég náði að misstíga mig. Inga Hrefna þurfti að ná í mig og gat ekki stillt sig um að hlæja að mér, enda lái ég henni það ekki. Miðað við það að þessi óheppni hefur lent á mér með tveggja daga millibili er ég alvarlega að spá í að halda mér í rúminu á föstudaginn. Jafnvel undir rúmi ef bókahillan skyldi allt í einu byrja að riða til. Það er sagt að fall sé fararheill. Ætli ég sé að fara eitthvert?
Hrakfallabálkurinn