Allir vildu Lilju kveðið hafa
 

 
Almennt fnuss út í heiminn
 
 
   
 
þriðjudagur, apríl 29, 2003
 
Þið þekkið þessa tilfinningu að vera búin að vinna of mikið. Ég er með hana núna. Það er í alvörunni eins og ég sé búin að setja tvær bækur í hausinn á mér. Ég er sem sagt byrjuð í vorprófum og þvílík breyting frá vorprófunum í menntaskóla. Þá las maður ákveðið lesefni einu sinni yfir, skellti því niður á blað í prófinu og búið. En núna er ætlast til að maður SKILJI námsefnið. Svo að núna sit ég í tíu tíma inni í loftlausri byggingu og reyni að troða inn í hausinn á mér muninum á skilyrtri dreifingu og óháðu t-prófi. En til þess að losna undan oki aðferðafræðinnar um stund ætla ég að segja hvað á daga mína hefur drifið síðan seinast.

Fimmtudagur, 17. apríl 2003
Eftir mikla tilhlökkun og tveggja tíma svefn hélt ég af stað til Keflavíkur. Átti ég í engum vandræðum að koma mér upp á verslanasvæðið í Leifsstöð, ef frá er talið að ég þurfti að fara úr skónum við öryggishliðið vegna málmkenndra efna sem ég náði að stíga í einhvers staðar (vitaskuld fékk ég að fara í þá aftur þegar fullri athugun var lokið). Eftir stuttan verslunarleiðangur, þar sem keyptar voru saltpillur og súkkulaðirúsínur handa íslensku Hollendingunum var haldið út í flugvél þar sem við tók þægilegt og viðburðasnautt þriggja tíma flug til lands túlípana og flatlendis. Í Schiphol fór ég beinustu leið út í lest eftir stutt stopp til að ná í farangur og kaupa miða í lestina. Ég fór út í Duivendrecht og þar sem ég var í dálitlu stresskasti fór ég inn í fyrstu lest sem stóð Nijmegen á. Ég áttaði mig stuttu seinna að ég hafði farið í vitlausa lest en það gerði ekki mikið til þar sem ég náði að fara í rétta lest í Utrecht. Loksins, klukkan fjögur að staðartíma leit ég minn gamla heimabæ. Þar sem ég ætlaði að labba aðeins um í miðbænum var ég búin að ákveða að skella töskunum inn í skápa sem voru á lestarstöðinni. Því miður vantaði mig klink þannig að ég fór beinustu leið að næstu sjoppu til að kaupa mér vatn, tók skiptimyntina en gleymdi vatninu. Greinilegt hver forgangsröðunin var hjá mér þann daginn. Eftir að hafa rifjað upp gömul kynni niðri í miðbæ Nijmegen (Næmeijgen) hitti ég Sollu og Pétur yfir sítrónusorbet. Við komuna í Dravik 46 sást lítill drengur gægjast út um glugga, sennilega til þess að kíkja á fína vinnubílinn hans pabba síns og vonandi á mig. Þegar ég kom inn var Nonni hins vegar svolítið feiminn og faldi sig í hálsakoti mömmu sinnar. Hann fann þó hugrekkið aftur þegar ég sýndi honum gjöfina frá afa sínum og ömmu, Toy Story á DVD (einnig virtust Pétur og Solla vera frekar sátt með að fá nammið sitt). Toy Story var settur í DVD-spilarann og Nonna leyft að horfa á hann á meðan Pétur bjó til sitt margfræga djambó. Það er ólýsanlegt að fá aftur mat sem maður hefur dreymt um í langan tíma. Ef ég gæti þá færi ég alltaf í mat til Hollands þegar djambó væri á boðstólum. Enda kom í ljós að Ollý, au-pair stúlka úr Molenhoek, kunni vel að meta kostinn. Það skildi ég mjög vel. Eftir matinn horfði ég á sjónvarpið í smá stund og fór svo upp að sofa.

Föstudagur, 18. apríl 2003
Ég vaknaði um hálf-tólf og staulaðist niður, þar sem Solla, Nonni og yndislegt veður tóku á móti mér. Á meðan stubburinn svaf lágum við stelpurnar úti og sleiktum sólina. Eftir að Nonni vaknaði og var búinn að borða svolítið héldum við Solla og Nonni út að gefa hestinum brauð (sem var svo ekki á sínum stað) og á leikskólann. Nonni skemmti sér konunglega og ég gat ekki annað en glaðst yfir því að vera komin á kærar slóðir aftur. Nonni skemmti sér vel, hitti vin úr leikskólanum (sem hann sagði þó ekkert nema nei við) og fékk að hlaupa á milli leiksvæða. Enda var hann svolítið tregur til að halda heim á leið en var sáttur um leið og við komum inn. Mér þótti mjög vænt um að heyra hvað hann er byrjaður að tala mikið, hvað hann vill og hvað gerist þegar peran springur. Sem betur fer hefur hann haldið í ljúfu hliðina sína. Þegar Pétur kom heim var búið til kjúkling í karrí sem ég gat borðað, mér til mikillar ánægju, þar sem fyrstu tilraunir urðu vanalega til þess að ég borðaði heldur meira af brauði með matnum en ég er vön. Aftur lauk deginum á smá sjónvarpsglápi og nammiáti áður en haldið var upp í ból.

Laugardagur, 19. apríl 2003
Þar sem ferðinni var heitið til Antwerpen þurftu allir að vera komnir á ról klukkan hálf-níu. Ásta og Ollý höfðu farið út að skemmta sér kvöldið áður og komu niður svolítið skakkar, en eftir að sofa pínulítið í bílnum sýndu þær sína hressu hlið. Veðrið í Antwerpen var ekki upp á sitt besta svo að allir fóru í hlífðarfatnað áður en haldið var í dýragarðinn. Þegar við vorum að ganga inn í hann var skyndilega gripið um axlir okkur. Var þar kominn blár páfagaukur sem lét engan í friði og myndatökumaður sem fylgdi. Solla og Pétur ætluðu að nota tækifærið til að sleppta á meðan við stelpurnar vorum myndaðar en gaukurinn var sneggri og stillti sér hátíðlega á milli þeirra. Sekúndu seinna var hann hlaupinn að næstu fórnarlömbum. Auðvitað var fyrsta stoppið í dýragarðinum í hringekju og sýndi litli maðurinn snilli sína við að stýra bílnum (tækinu í hringekjunni) í hringi. Hann setti meira að segja upp "svala" svipinn sitt og setti handlegginn út fyrir dyrnar. Eftir að hafa séð apa (sem vöktu mikla hrifningu), fíla og gíraffa læddumst við hin í burtu á meðan Solla svæfði Nonna. Við notuðum tækifærið og kíktum á skordýrasafn dýragarðsins og ég kom út þakklát fyrir að á meðal skordýra Íslands megi ekki finna kakkalakka eða fuglaköngulær. Eftir dýragarðinn héldum við niður í bæ þar sem við kvöddum Ástu og Ollý á meðan við fórum að skoða okkur um. Eftir stutt stopp á kaffihúsi, þar sem stubburinn vaknaði, rölt í kirku Antwerpen og miðbænum, vöffluát og pizzuát var kominn tími til að halda heim á leið.

Sunnudagur, 20. apríl, 2003: Páskadagur
Klukkan 10 voru allir komnir niður og byrjaðir að borða páskaeggin sín. Nonni horfði sáttur á Toy Story og virtist ekkert taka eftir smjattinu í okkur hinum. Um hádegisbilið fór ég með litlu fjölskyldunni í pönnukökuhúsið þar sem við létum fara vel um okkur. Seinna um daginn fór ég með Ástu, Heiðu (au-pair frá Eindhoven) og Ollý yfir til Molenhoek til þess að hitta Betu (au-pair frá Rotterdam). Hún var líka í Rotterdam þegar ég var úti svo ég hlakkaði til að sjá hana og heyra hvað hún hefði að segja. Hún hefur víst haft það gott úti, ætlar að vera eitt ár í viðbót og ætlar að fá stelpurnar frá Nijmegen til sín einhvern tímann. Pétur bjó til ljúffengt lasagna í kvöldmatinn og eftir það sátum við þrjú við spil á meðan stelpurnar fóru út að skemmta sér.

Mánudagur, 21. apríl, 2003
Dagurinn hófst á morgunmat úti í garði undir heiðskýrum himni. Litla fjölskyldan og ég héldum svo út til Den Hertogenbosch til þess að kíkja í nýtt umhverfi, en komumst svo að því að allar búðir voru lokaðar. Í staðinn brunuðum við aftur niður í bæ þar sem ég hélt ein af stað í verslunarleiðangur sem varð vægast sagt árangursríkur. Um kvöldið borðuðum við svo aftur úti í garði og nutum góða veðursins. Klukkustund seinna komu þrumur og eldingar sem hafa víst ekki komið í nokkra mánuði. Ég var fullkomlega sátt við það þangað til þær eyðilögðu tilraunir okkar Sollu og Péturs til þess að horfa á Princess Bride. Við fórum öll snemma í háttinn þar sem að allir þurftu að leggja snemma af stað í vinnu, skóla eða flug.

Þriðjudagur, 22. apríl, 2003
Ég vaknaði nógu snemma til þess að fara með Nonna og Ástu út í peuterspeelzaal (eða eins og ég reyndi að segja peutepeute...ehhhh, leikskólann). Nonni tók ekki mikið eftir því að ég væri að fara, þannig að ég smellti kossi á hann, knúsaði hann pínu lítið og hélt aftur heim með Ástu. Stuttu seinna kvaddi ég Ástu og fór í strætó niður á lestarstöð. Þar var ég orðin svo stressuð um að missa af lestinni að ég fékk að fara fremst í röðina til þess að kaupa miða. Lestin kom ekki fyrr en kortéri seinna, þar af fimm mínútna seinkun. Ferðin heim gekk svo vandræðalaust, ég var komin heim klukkan fjögur og búin að taka upp úr töskunum klukkan sex.

Síðan þá:
Læra, læra, læra, slökun, læra, próf, læra! Ég er mjög ánægð með ferðina til Hollands og vona að ég geti farið þangað aftur. Takk fyrir mig, Solla og Pétur, þetta var alveg yndislegt og gerði mér gott (eiginlega of gott miðað við að ég þyngdist um kíló úti) ;)

 

 
   
  This page is powered by Blogger, the easy way to update your web site.  

Home  |  Archives