Ég auglýsi hér með eftir félögum í gönguferð yfir Fimmvörðuháls á Jónsmessu. Nánari ferðalýsingu má sjá
hér (bara fletta niður að Fimmvörðuhálsi, næturgöngu um Jónsmessu). Einnig væri gaman ef einhverjir sæju sér fært að skella sér á Laugaveginn með mér. :)
Mikið svakalega er maður latur við að blogga þessa dagana. Það hefur bara verið svo mikið að gera hjá mér. Ég sem sagt náði að skila þessari skýrslu á föstudaginn eftir 10 tíma setu á Bókhlöðunni við að klára hana og svo strax eftir að ég var búin að skila þurfti ég að fara í munnlegt próf í Greiningu og mótun. Ég var nú hálf-vönkuð eftir þann dag, fór heim eftir stutt stopp á Devito's og horfði á sjónvarpið til tólf. Svo fór laugardagurinn í aðra skýrslu. Sem betur fer vorum við stelpurnar búnar með hana klukkan fimm þannig að ég gat farið heim. Um kvöldið kíkti ég svo í bíó með Maríu systur á Maid in Manhattan, svakalega sæt mynd :). Svo fór sunnudagurinn í leti, leti og leti. Þessar helgar eru hættar að vera helgar lengur, ég þarf alltaf að læra svo mikið. En á móti kemur að það eru ekki nema þrjár vikur eftir :) Jibbíííí!
Heyrðu, ég var næstum því búin að gleyma, ég gaf blóð á fimmtudaginn. Ef ég hefði vitað hvurs lags konungsmeðferð maður fær hjá hjúkkunum í Blóðbankanum þá hefði ég farið miklu fyrr. Það var reyndar eitthvert vesen með línuna mína, þannig að þær þurftu að snúa nálinni (ekki alveg nógu gott) en eftir tilfæringarnar gekk allt betur. Svo var hugsað vel um mig, ég leidd inn í matsalinn/herbergið, hellt djús í glas fyrir mig og fleira. Reyndar þurfti ég að smyrja brauðið sjálf en ætli maður fyrirgefi það ekki miðað við framboðið á mat. Það var hægt að fá súpu, brauð, kleinur, kex, rúsínubollur, kaffi, djús, mjólk o.s.frv. Ég hlakka til að geta gefið blóð aftur :)