| |
föstudagur, febrúar 28, 2003
Af hverju vill fólk að maður kynnist því hvernig er að vera full(ur)?? Ég verð að viðurkenna að þetta er ráðgáta sem ég hef lengi velt fyrir mér. Jafnvel vinir manns eiga það til að lofa þetta tiltekna ástand eins og það sé það besta í heimi að vera ringlaður, illa lyktandi og hlaupandi á salernið á fimm mínútna fresti. Hvað er svona dásamlegt við að drekka ógeðslegan vökva sem getur haft verri áhrif en að drekka terpentínu, til lengri tíma litið? Nú er ég ekki að rakka niður allt áfengi, þar sem bjór og léttvín eru góð í hófi, en gin, vodki og allir aðrir vökvar sem fólk drekkur í þeim eina tilgangi til þess að verða fullt á fimm mínútum, forðast ég eins og pestina. Hvað er svona dásamlegt við þetta ástand?Ég fer að halda að fólk vilji að aðrir drekki til þess að geta hlegið að vitleysunni í þeim. Ég er auðvitað enginn engill og hef hlegið að vinum mínum á góðri stund, rétt eins og aðrir hafa hlegið að mér þegar ég varð full en mér dettur ekki í hug að ganga til þeirra vina sem drekka ekki og segja: "Þá verðurðu bara að koma á almennilegt fyllerí næst!" Veltir fólk yfirleitt því fyrir sér hvað það er að segja þegar það segir svona? Hugsunin er kannski að þessi tiltekni aðili (köllum hann Jón) skemmti sér betur ef hann drekki, en ef að hann þarf áfengi til þess að skemmta sér einhvers staðar, er þá ekki verið að segja að þessi tiltekni staður sem Jón á að fara á sé í eðli sínu svo leiðinlegur að hann verði einungis skemmtilegur ef áfengi er við hönd? Eða er kannski verið að meina að Jón verði sjálfur skemmtilegri ef hann "dettur nú ærlega í það"? Er Jón sem sagt það leiðinlegur að vinir hans geta ekki verið í kringum hann nema hann sé fullur? Einnig er búið að segja mér að það sé svo skemmtilegt að vera full(ur). Skemmtilegt? Ég drakk eitt hvítvínsglas um daginn og setti hausinn á mér í hringekju sem tók klukkutíma að stoppa (ég er hænuhaus, ég veit það). Allan þennan tíma fannst mér ekkert skemmtilegt við það að sjá mömmu mína snúast í kringum mig eins og Ofurmaðurinn á amfetamíni á meðan hún stóð kyrr. Þegar fólk segir við mig: "þú kemur með okkur á fyllerí" er það þá að meina: "þú ert svo hraust að við viljum að þú verðir heima í tvo daga, ælir lungum og lifur, rísir ekki úr rekkju nema til þess að hella úr fötunni og látir heilann fara í ótemjureið innan í höfuðkúpunni, bara svo að þú upplifir virkilega gleðina við fyllerí."?
Ég held að ég sé ekki óþægileg manneskja, ég hlæ að bröndurum þegar mér eru sagðir þeir, ég hlæ að heimskupörum,vorkenni manneskjunni sem framdi þau og gleymi þeim svo (vegna þess að það eiga góðir vinir að gera) og sýni væntumþykju þegar þess þarf. En að segja við einhvern "þú þarft að fara á gott fyllerí" er eins og að segja "mér finnst þú ekkert skemmtileg(ur) án áfengis". Svo í guðanna bænum, ekki fara í kerfi þegar einhver sem þið þekkið drekkur ekki, heldur verið þakklát, því þessi aðili er líklegri til þess að rétta ykkur hjálparhönd á ykkar verstu (drykkju-)stundum, til þess að brosa pínulítið þegar þið dettið og rétta ykkur svo hjálparhönd til þess að standa upp aftur, heldur en hinir sem eiga við sömu "drykkjuskemmtun" að stríða. Auk þess bragðast vatn miklu betur ;)
fimmtudagur, febrúar 27, 2003
VEIIIIIII, ég er að fara út til Hollands í apríl!!! Víííííííí. Það verður svo gaman að sjá Nonna, Sollu og Pétur aftur að það hálfa væri miklu meira en nóg! ÉG HLAKKA SVO TIL!!
Ég vil óska Einhverjum innilega til hamingju með nýja comment-kerfið og vona að við munum eiga gott samstarf í framtíðinni. Húrra, húrra, húrra.
miðvikudagur, febrúar 26, 2003
Ég var svo ánægð að labba í skólann í morgun vegna þess að sólin var að koma upp. Mér finnst dásamlegt hversu snemma er orðið bjart á morgnana, það eykur enn meira á sumarskapið sem ég er í. Mig langaði meira að segja að kalla til sólar "Sæl vertu, Sunna, fyrir að veita birtu inn í sál þreytts stúdents". Ég vona að ég verði áfram í góðu skapi út daginn. Góðan dag, allir saman :o)
þriðjudagur, febrúar 25, 2003
Ég ákvað að fyrst að ég var komin með nýtt útlit varð síðan mín að fá það líka. Hún er miklu hlýlegri svona, finnst ykkur ekki?
Ja, hérna, mikið óskaplega er langt síðan að ég settist við skriftir. Þetta heit mitt um að blogga annan hvern dag fór fyrir lítið. Ég er búin að vera upptekin við að skrifa skýrslu, fara á Framsóknarþing og vera í skólanum (auðvitað). Reyndar var ég ekki mjög virk á þessu blessaða þingi, fór á bjórkvöld á föstudaginn og ball á laugardaginn en lét allar kosningar vera. Ég er farin að álíta að svona ópólitískir aðilar eins og ég ættu að halda sig utan við pólitík þar til þeir hafa myndað sér sjálfstæðar skoðanir. Annars verða gloppur í rökum, trúin veik og skoðanir hverfular. Það virðist líka hafa þau áhrif að karlar á sjötugsaldri reyni við ungar stúlkur á flokksþingum og það ætti ekki að vera í boði nema trúin að flokkinn sé sterk og stöðug. ;o)
Annars er mjög skemmtilegt að sjá hver áhrifin eru á annað fólk þegar maður segist vera í Framsókn. Sumum bregður, aðrir grínast og enn aðrir gera sitt besta til þess að fá fram skoðanabreytingu. Ég er einmitt nýbúin að samþykkja að fara á stjórnmálanámskeið í Samfylkingunni með einum strák í leshópnum (hann er í mjög góðu sambandi við mjög indæla stúlku, fyrir þau sem voru að velta því fyrir sér). Við höfum rætt mikið um hvernig Framsókn hefur staðið sig í ríkisstjórninni og þessar umræður leiða vanalega til þess að ég fer að efast um hvort ég eigi yfirleitt að ræða um stjórnmál, eins fáfróð og ég er. Það er ástæðan fyrir því að ég ætla á þetta námskeið. Hins vegar veit ég það að Samfylkingin muni auglýsa sig og sína þangað til allir lofa Samfylkinguna og bjóðast til að taka þátt í öllum hennar störfum. Eins gott að ég er ekki áhrifagjörn ;o)
Ég fékk loforð um ókeypis djamm ef ég kæmi með en ég held að ég láti mig vanta í það. Ég er nefnilega búin að fá nóg af öllu slíku um óákveðinn tíma, eða a.m.k. þangað til í næstu viku þegar árshátíðin verður. Ég virðist líka ekki hafa neinn áhuga á karlmönnum. Ætli það sé afleiðing helgarinnar, þegar fimm karlmenn á sjötugsaldri einrómuðu fegurð okkar systranna? Ég held ég vilji ekki vita það.
|
|