Prófið gekk mjög vel. Ég náði að redda mér með því að skrifa niður helstu atriðin sem ég þurfti að muna og það var nóg til þess að ég gæti svarað öllu, hvort sem það er rétt. Það sem eftir lifir dags ætla ég að taka því rólega, kannski að læra eitthvað og taka mig til fyrir fimmtugspartíið hjá Ástu og Ívari.
"Það blanda allir landa upp til stranda, og vanda sig svo við drekka bjór.."
Ég er að fara í próf á laugardaginn og þá er maður auðvitað að hugsa um allt annað en að læra. Við stelpurnar (þ.e. Fanney, Sigga og ég) ætlum að vera í Odda í dag og panta pizzu, merki þess að við ætlum að leggja það hart að okkur að við eigum skilið að fá verðlaun. Það er hins vegar spurning hvort ég læri mikið með þetta lag á heilanum. Annars er alveg einstaklega fyndið hvaða afsakanir maður kemur með til þess að "verðlauna" sig. "Ég las í klukkutíma í lífeðlislegri sálfræði, ég verð að verðlauna mig með hálftíma í tölvunni" eða "hey, frábært, ég er búin að setja í þvottavélina, þá þarf ég ekki að gera neitt heima í viku". Ég hef sem sagt verið að velta mikið fyrir mér hvort að það fari allt of langur tími hjá mér í "verðlaun" sem kemur í veg fyrir námið. Spurning um hvort ég fari ekki að skilyrða sjálfa mig til þess að læra lengur.
Skilyrðing snýst sem sagt um það að lífvera (ég) lærir að tengja áreiti/atburði (námið) við svörun (verðlaun). Ég á eftir að útfæra nánar hvernig ég skilyrði sjálfa mig en vonandi verð ég búin að því fyrir vorið.
"Það blanda allir landa..."
Jæja, það mistókst að skrifa annan hvern dag. Ég ætla samt sem áður ekki að gefast upp á því. Það er í rauninni ekkert að gerast, ég sit bara í skólanum og blogga áður en ég fer í tíma. Það virðist vera einhver óskrifuð regla hjá þessum blessuðu kennurum að bæta endalaust á mann verklegum tímum. En ætli maður horfi ekki bara á björtu hliðarnar, ég læri þó að nota tölvurnar í rannsóknum. Úbbs, tíminn er að byrja!