Prófið gekk mjög vel. Ég náði að redda mér með því að skrifa niður helstu atriðin sem ég þurfti að muna og það var nóg til þess að ég gæti svarað öllu, hvort sem það er rétt. Það sem eftir lifir dags ætla ég að taka því rólega, kannski að læra eitthvað og taka mig til fyrir fimmtugspartíið hjá Ástu og Ívari.
"Það blanda allir landa upp til stranda, og vanda sig svo við drekka bjór.."
Ég er að fara í próf á laugardaginn og þá er maður auðvitað að hugsa um allt annað en að læra. Við stelpurnar (þ.e. Fanney, Sigga og ég) ætlum að vera í Odda í dag og panta pizzu, merki þess að við ætlum að leggja það hart að okkur að við eigum skilið að fá verðlaun. Það er hins vegar spurning hvort ég læri mikið með þetta lag á heilanum. Annars er alveg einstaklega fyndið hvaða afsakanir maður kemur með til þess að "verðlauna" sig. "Ég las í klukkutíma í lífeðlislegri sálfræði, ég verð að verðlauna mig með hálftíma í tölvunni" eða "hey, frábært, ég er búin að setja í þvottavélina, þá þarf ég ekki að gera neitt heima í viku". Ég hef sem sagt verið að velta mikið fyrir mér hvort að það fari allt of langur tími hjá mér í "verðlaun" sem kemur í veg fyrir námið. Spurning um hvort ég fari ekki að skilyrða sjálfa mig til þess að læra lengur.
Skilyrðing snýst sem sagt um það að lífvera (ég) lærir að tengja áreiti/atburði (námið) við svörun (verðlaun). Ég á eftir að útfæra nánar hvernig ég skilyrði sjálfa mig en vonandi verð ég búin að því fyrir vorið.
"Það blanda allir landa..."
Jæja, það mistókst að skrifa annan hvern dag. Ég ætla samt sem áður ekki að gefast upp á því. Það er í rauninni ekkert að gerast, ég sit bara í skólanum og blogga áður en ég fer í tíma. Það virðist vera einhver óskrifuð regla hjá þessum blessuðu kennurum að bæta endalaust á mann verklegum tímum. En ætli maður horfi ekki bara á björtu hliðarnar, ég læri þó að nota tölvurnar í rannsóknum. Úbbs, tíminn er að byrja!
Ég er að hugsa um að sækja um skálavarðarstöðu í Ferðafélagi Íslands. Það þýðir að ég yrði uppi á fjöllum í allt sumar, sem er í sjálfu sér alveg frábært. Ég get varla hugsað mér betri leið til þess að eyða sumrinu. Pabbi og mamma reyna að halda mér niðri á jörðinni með því að benda á að þetta á eftir að verða svakaleg vinna og ég yrði utan við alla menningu. Ég er alveg tilbúin í áskoranir. Ég er búin að heyra að það er verið að ráða í stöður á Laugaveginum og Nýjadal en ég yrði sátt við að vera alls staðar. En þetta kemur allt í ljós. Ef ég fæ þessa vinnu byrja ég á því að fara oftar í líkamsrækt. Ef ég fæ þetta tek ég einhvern dag í það að hlaupa Laugaveginn fram og aftur bara til þess að sýna sjálfri mér að ég get það.
Ég veit ekki af hverju ég er svona æst í að labba yfir fjöll, maður labbar í nokkra tíma, áir og heldur svo áfram þar til maður áir aftur. Ætli það sé ekki þessi ótrúlega orka sem maður fær af því að ná þessu markmiði, að sigra fjallið/komast í skálann. Einnig eru tengslin við náttúruna meiri þar en hér. Útsýnið spilir ekki heldur fyrir. Ég man þegar ég labbaði yfir Fimmvörðuhálsinn. Við stoppuðum á einum stað þar sem sást yfir alla Þórsmörk og ég varð ástfangin. Ég ætla að fara á þann stað aftur, vonandi núna í ár. Gangan tók rúma tíu tíma og ég kom í skálann þreyttari en orð fá lýst. Ég lagðist upp í rúm, fór einu sinni fram úr, svo upp í aftur og steinsofnaði. Ég hef aldrei sofið eins vel og ég gerði þá. Ætli þessi ást mín á gönguferðum hafi ekki líka eitthvað með það að gera að ég hef alveg ákaflega gaman af því að reyna á sjálfa mig. Enda hef ég afráðið að halda á Laugaveginn í sumar hvort sem það verður vegna vinnu skemmtunar. Ég stefni líka á Jónsmessugöngu yfir Fimmvörðuhálsinn. Ætli það megi ekki segja að pabbi hafi smitað mig af göngubakteríunni sinni. Ég ætla ekki einu sinni að ræða hinar gönguferðirnar sem mig langar í, því að ég hef heyrt að það sé svolítið óvenjulegt. Ætli það megi ekki segja að ég sver mig í ætt við steingeitarmerkið ;).
Annars er lítið í fréttum. Ég fór á föstudaginn í afmæli til Björg Ölfu og hitti alla fjölskylduna. Pabbi leyfði sér að auglýsa bloggið mitt þannig að ég má búast við því að nokkur ættmenni séu að kíkja hingað inn. Síðan fór ég í heimsókn til skötuhjúanna í Kópavoginum og fékk að taka aðeins í tölvustýrið hjá Ívari. Það var oggu pínu meira en skemmtilegt, híhí. Ég náði líka að semja við Hrönn (vinkonu Ástu) að fá lánaðan kjól fyrir komandi árshátíð þannig að afmælið hennar Ástu næstu helgi byrjar á kjólamátunum. Laugardagurinn fór í leti og bíóferð á Chicago. Þrjár liljur þar. Svo var skírn hjá Ellisif vinkonu í dag (sunnudag) þar sem litlu strákarnir hennar tveir voru skýrðir Ísar Logi og Kristinn Snær. Þeir voru svakalegar dúllur en ekkert allt of hressir með að fá vatn á kollinn sinn. Það lagaðist þó fljótt. Komandi vika fer í próflestur og leit að afmælisgjöf handa Ástu. Ég lofaði sjálfri mér að reyna að blogga annan hvern dag þannig að við sjáumst á þriðjudaginn :o)