Allir vildu Lilju kveðið hafa
 

 
Almennt fnuss út í heiminn
 
 
   
 
miðvikudagur, febrúar 05, 2003
 
Út af því að Haloscan virðist einu sinni enn vera komið í frí ákvað ég að skrifa bara komment hérna í staðinn fyrir á stubbi.net. Ég var sem sagt að lesa nýjasta pistilinn þeirra Sollu, Péturs og Nonna þar sem var sagt að litli maðurinn hefði beðið bænirnar sínar í gærkvöldi. Þvílík dúlla!! Mér fannst sérstaklega dúllulegt duddunautu (skuldunautum). Mikið langaði mig til að knúsa strákinn þá. Ég held ennþá í þá von að ég komist út til þeirra um páskana, þó að ég geti ekki fullyrt neitt með vissu ennþá.
Annars er það að frétta af mér að ég er orðin stuttklippt og rauðhærð eftir langt stopp hjá Hafdísi frænku í Coma (hárgreiðslustofa í Grafarvoginum). Ég er mikið búin að skemmta mér yfir viðbrögðum hjá fólki í dag og í gær því að það byrja allir á því að horfa framhjá mér, svo er litið snöggt á mig, augun glennt upp og hrópað: "Nei, Lilja! Ég þekkti þig ekki!" Þetta er nefnilega í fyrsta skipti sem ég geri einhverjar breytingar á háralit. Það segja allir að hárið á mér sé flott svona. Reyndar er athyglisvert að það segir enginn að ÉG sé flott svona. Hmmm, þetta verður að athuga :o). En mestu máli skiptir auðvitað að ég sé sátt og mig hefur alltaf langað til að vera rauðhærð.
Lífið gengur sinn vanagang. Ég átti alveg einstaklega indælt föstudagskvöld með Siggu og Fanneyju. Við fórum í leikfimi í Baðhúsinu og svo í heita pottinn þar. Ég féll svo gersamlega fyrir þessum stað að ég ákvað að ég myndi kaupa kort þar um næstu mánaðarmót. Ég er nefnilega búin að komast að því að Pumping Iron hæfir mér ekki, þó að kick-boxið sé skemmtilegt. Eftir Baðhúsið fórum við stelpurnar svo á Svarta Kaffið og fengum okkur súpu í brauði. Það var sport og ferlega góð súpa :o). Við enduðum kvöldið með því að skella okkur á 8 mile með Eminem. Hún reyndist skemmtilegri en ég átti von á þannig að hún fær tvær og hálfa lilju hjá mér. Laugardagurinn fór í afslöppun og skiptinemapartý um kvöldið og sunnudagurinn var löng og góð innivera. Mig langaði a.m.k. ekki út í veðrið þann daginn. Að öðru leyti er allt eins og best verður á kosið.

 

 
   
  This page is powered by Blogger, the easy way to update your web site.  

Home  |  Archives