Heilagir hálfhundar! Ég hef aldrei kynnst annarri eins bók og ég er að lesa þessa dagana. Ég er að fara í próf næsta þriðjudag í aðferðafræði og ég sé fram á að geta einungis svarað tölfræðihlutanum, því að í hvert einasta skipti sem ég opna aðferðafræðibókina er ég farin að dotta eftir tíu mínútur. Ég er búin að vera hérna á Bókhlöðunni í 6 tíma og hef virkilega þurft að halda mér við lesturinn. Fyrst les ég fimm línur og fer þá að syngja jólalög. Ég stoppa og lít aftur í bókina. Ég les næstu fimm línur og er þá byrjuð að hugsa um mat. Aftur stoppa ég og held áfram. Næstu fimm línur, svo þarf ég að standa upp til þess að teygja úr mér. Þegar ég er komin á þetta stig er vanalega stutt í að ég finni hvað augnlokin eru orðin þung. Mér hefði aldrei dottið í hug að bækur gætu haft þessi áhrif á mig. Ég lít þó á björtu hliðarnar og gleðst yfir því að hafa fundið þarna tilvalda bók til þess að lesa ef ég verð einhvern tímann andvaka. Það er ekki skrýtið að ég sé búin að fresta þessu í tvo daga.
Sem betur fer er aðferðafræðiprófið seinasta prófið mitt. Eftir það liggur bein leið í vinnuna, þá á myndina Two Towers (jibbíííííííí) og svo jólin. Ég er ekki enn byrjuð að kaupa jólagjafir og velti fyrir mér hvort ég ætti eitthvað að stressa mig. Skynsemin nær alltaf yfirhöndinni með þeim rökum að ég hafi ekki tíma, ég er í prófum. Það er greinilegt að þetta tveggja daga frí sem ég tók mér eftir prófið í almennri sálfræði er ekki talið með. :) Ég hlakka svooooooo mikið til að komast í næstum fjögurra vikna frí þar sem maður er laus við Bókhlöðuna. Ég ætla líka að nota tímann vel, fara í leikfimi, lesa Simone de Beauvoir (og koma úr fríinu sem gallhörð kvenréttindakerling) ;) og njóta jólahátíðarinnar.
En jæja, nú er þessi blessaði hálftími sem ég þurfti að eyða að verða búinn, svo að ég ætla að drífa mig til ömmu í nudd. Hver var að segja að prófatíminn væri svo erfiður?
Þessi
leikur verður að fá að fljóta með. Hann er fyrir alla sanna Grettisaðdáendur, og alla sem eiga erfitt með svefn. Njótið vel :)