|
föstudagur, ágúst 23, 2002
Rosalega getur svona nokkuð farið í taugarnar á mér!!! Ég á 14 ára gamla systur sem er klár, skemmtileg og fín stelpa að öllu leyti (svolítil gelgja, en það er bara aldurinn) en hún á við eitt vandamál að stríða. Hún er lögð í einelti. Þetta kom upp fyrst í fjórða bekk, þá var hún í Rimaskóla. Af engri augljósri ástæðu byrjuðu nokkrir strákar í bekknum hennar að herja á hana, sparka í hana og stríða henni. Hún varði sig hetjulega, en fyrr en varði komst þetta inn í sálina hennar. Ástandið varð meira að segja svo slæmt að hún þurfti að skipta um skóla. Eftir nokkrar vikur í þeim skóla komu nokkrir strákar og börðu upp á hjá okkur, fyrrverandi bekkjarfélagar, að spyrjast fyrir um ástæður skólaskiptann. Þetta voru nákvæmlega sömu strákar og höfðu verið að stríða henni eða a.m.k. tekið þátt. HALLÓ HÁLFVITAR!!! Seinna kom í ljós af hverju eineltið hafði byrjað. Ástæðan??? Strákarnir tóku bekkjarlistann sinn, bentu einhvers staðar á hann og varð systir mín fyrir valinu. UUUUUURRRRGGGGHHHHH. Auðvitað er engin ástæða góð fyrir einelti, en ég hef sjaldan heyrt svona slæmar ástæður! Svo loksins er systir mín komin með góðan vinahóp utan um sig þegar þetta kemur upp á. Einhver stelpa sem átti að vera góð vinkona býður henni ekki í afmælið sitt og önnur kallar hana Spooky. Venjulega hefði þetta sært mann og svo hefði maður fyrirgefið (ef út í það færi) en systir mín, vegna eineltisins, er með laskað sjálfsálit sem brotnar enn meira niður við eitthvað svona. Hún var grátandi inni í herbergi fyrir tuttugu mínútum síðan og lýsti því meðal annars yfir að hana langaði ekki til að lifa lengur, það hlyti að vera eitthvað að sér, að hana langaði ekki til að kynnast krökkum lengur o.s.frv. o.s.frv. ER ÞETTA NORMALT??? Ég bara veit það að þegar litla systir mín kemur með svona yfirlýsingar þá er eitthvað mikið í gangi. Þessi sem á afmæli sagðist ætla að bjóða henni og gerir það síðan ekki út af einhverri ástæðu sem er ekki ljós. Systir mín hefur þurft að fara í gegnum ansi mikla sjálfstyrkingu til að vera þar sem hún er í dag og síðan kemur svona upp á. HELVÍTIS HÁLFVITAR!!!
fimmtudagur, ágúst 22, 2002
Vei, ég get eldað sæmilega ætilegan mat!! Ég bjó til djambó í kvöldmatinn og þó að það fór ekki alveg eins og ég vonaði var bragðið mjög svipað djambóinu hjá Pétri og Sollu. Þannig að ég mun hafa meiri afskipti af eldhúsinu og kvöldmatargerð í framtíðinni. Eins gott að maður noti þessa blessuðu Gestgjafaáskrift :)
Oooh, vá, strax kominn fimmtudagur. Ég hlakka rosalega mikið til helgarinnar, ekki síst fyrir þær sakir að þá get ég sofið út. Ég er varla að nenna að vinna, sit bara og bögga Svenna eða einhvern annan sem ég þekki á MSN-inu. Þetta er orðið svo slæmt að ég sit með verkefnin við hliðina á mér á meðan ég spjalla. Enda skammast ég mín mjöööööög mikið þegar einhver labbar fram hjá og gæti séð hvað ég er að gera. Ég er næstum búin að fullkomna þykjustuleikinn, í staðinn fyrir að þykjast vinna, þykist ég standa á sama. Sem betur fer er þessi dagur hálfnaður.
mánudagur, ágúst 19, 2002
Jamms, þessi helgi var nákvæmlega eins og ég vildi hafa hana. Bæði mjög skemmtileg og mjög afslöppuð. Þetta byrjaði allt saman á föstudaginn með partýi sem Ingó og Fjóla héldu vegna fyrirhugaðrar ferðar til Danmerkur. Þar var mikið rætt, hlegið, etið og drukkið (nema ég því ég ákvað að vera edrú). Því miður þurftu íbúarnir að henda okkur út í kringum eitt-leytið, en tókst ekki betur til en svo að allir sem eftir voru í partýinu stoppuðu út á stétt og gláptu upp í stjörnubjartan himininn. Svo var förinni heitið niður í bæ á Café Romance að hlusta á hann....ummm....herra....umm...píanóleikara sem spilaði fús fjöldamörg óskalög frá okkur. Eftir Café Romance fóru Ásta og Ívar heim, en Jonni, Kjarri, Mundi, Svenni og ég héldum áfram. Kíktum við inn á nokkra staði og hristum skankana en urðum frá að hverfa vegna gífurlegra reykinga, skorti á (kven?)fólki og ömurlegrar tónlistar. En jafnvel þó að við höfum ekki fundið viðunandi stað fyrir okkur, verð ég að viðurkenna að ég hef sjaldan skemmt mér betur í bænum. Það var gott að vita að vegna félaga minna ætti ég ekki á hættu að einhver færi að abbast upp á mig eða reyna við mig á meðan ég er í stuði til að dansa. Ég nefnilega er þannig að þegar ég fer út að skemmta mér, þá þýðir það vanalega að ég dansa út í eitt. Allir sem hafa farið með mér út kannast örugglega við það að ég sest varla niður. Ég gleymi mér nefnilega algerlega í tónlistinni. Í því ástandi er ekki möguleiki fyrir aðila af hinu kyninu að ná sambandi við mig, nema að dansa eins og ég. Það minnir mig á svolítið sem ég byrjaði að velta fyrir mér á laugardagsnóttina. Það var stelpa að dansa út á gólfi og nokkrir strákar stóðu í kringum hana og gláptu. Ég er nú vön að heimfæra ekki allt upp á bíómyndir en augnaráðið sem þeir sendu henni fannst mér eiga heima í American Pie. Ég er að velta því fyrir mér hver hafi haft meira gaman að þessu, þeir eða hún. Ekki það að mér fannst hún hreyfa sig eitthvað asnalega, hún meira að segja hreyfði sig svipað og ég geri stundum. Alla vega var þessi staður síðasta stoppið áður en ég skutlaði öllum heim. Laugardagurinn var frekar afslappaður, ég skellti mér í Elko og Smáralindina með systrum mínum um daginn og kíkti á flugeldana um kvöldið. Það sem vakti helst athygli mína var hversu yndislegt veðrið var. Ekki beint heimspekilegt á menningarnótt, en þannig var það bara. Ég fékk eina ástæðu í viðbót til að þykja vænt um landið mitt og einar aðstæður í viðbót sem mig langar til að labba í um kvöld. Sunnudagurinn var einnig léttur. Ég fór fyrst í sund og síðan til Þingvalla til að sleikja sólina. Ég hins vegar fékk engan lit þó að ég hafi eytt þremur tímum í sólbað. Ég er algerlega orðin sannfærð um að sólin á Íslandi er bara til skrauts. En það er nú einu sinni að koma vetur....
|
|