| |
föstudagur, ágúst 16, 2002
Það er greinilegt að ég er ekki í neinum vandræðum með bloggið mitt, ég fékk það staðfest í þessu prófi: My weblog owns 12.5 % of me. Does your weblog own you?
Upp er runninn föstudagur...frábært, þá er loksins að koma helgi aftur. Ég var búin að bíða eftir þessum degi, ekki síst fyrir þær sakir að ég fékk loksins grænt ljós hjá Ægi í gær með allt annað en mjólkurvörur. Ég mætti galvösk í kaffið fyrir hádegi og fékk mér rúnstykki og kökur, en varð fyrir svolitlum vonbrigðum. Síðan hugsaði ég mér gott til glóðarinnar í hádeginu og fékk mér pizzu og meðlæti, en hvað gerðist? Mig langaði bara í speltbrauð og grænmeti í staðinn. En þetta er samt góð þróun, held ég.
Annars finnst mér voða fyndið að heyra alltaf umræðuefnin í matartímanum, vegna þess að þau snúast vanalega um það sama. Fyrst er byrjað á því að kvarta svolítið ("Hva, er ekki til hvítlauksolía???"), svo er talað um vitleysur náungans og að lokum er farið út í áreiðanleika minnis á nöfn starfsmanna. Þannig eru a.m.k. samræðurnar á mínu borði. Það er líka eitt, borðaskiptingin. Maður veit alltaf við hvaða borð strákarnir fara (næst matarborðinu, auðvitað), hvert lagerstelpurnar fara (aftast til að njóta útsýnissins) og loks skrifstofufólkið (miðjuborð til hægri til að geta sér vel út um gluggann og tala um alla þá sem koma inn í bygginguna). Einhvern veginn er ég viss um að strákarnir tala alltaf um fótbolta, miðað við fyrri reynslu. Hins vegar er ómögulegt að segja eitthvað um viðfangsefni stúlknanna hverju sinni, enda ákaflega fjölbreyttur hópur.
fimmtudagur, ágúst 15, 2002
If you're happy and you know it, clap your hands *klapp, klapp* If you're happy and you know it, clap your hands *klapp, klapp* If you're happy and you know it and you really got to show it, if you're happy and you know it clap your hands *klapp, klapp* OHHHHHH, ég þoli ekki heilalausa vinnu. Ég er búin að hafa þetta á heilanum í hálftíma og er að verða vitlaus.
Hana, þá get ég loksins bloggað aftur. Þessi vinnudagur er búinn að vera óvenjulegur í mesta lagi, ég ekki haft neitt ákveðið að gera, né neina aðstöðu til að vera á. Ég flækist bara á milli og hoppa á netið þegar tækifæri gefst. Greyið Svenni fékk ekki einu sinni frið með tölvuna sína. Ég er núna að skrifa á tölvu Gaugau, tek símann og slappa af. Ég er farin að velta fyrir mér hvernig ástandið verður í næstu viku, þegar flestir verða komnir úr fríi. Útlit er fyrir að ég verði sett inn í fundarherbergi að dunda mér þar.
Ég er nú einu sinni þannig gerð að ef ég hef ekki mikið að gera þá fer hugurinn á flug. Stundum er ég komin inn seinastu bíómynd, skipandi öllum fyrir og leikandi ofurhetju. Ég hef verið að gera mikið af því í dag :o)
Aldrei hefði mér dottið í hug að það væri hægt að skemmta sér vel í fótbolta með strákunum. Oftast nær þegar stelpur fara í fótbolta með strákunum þurfa þær að hírast út í horni vegna þess að strákarnir sparka svo fast eða garga á þær að fara frá. Þannig er a.m.k. mín áttunda bekkjar reynsla með strákunum. Hins vegar fór ég í gær í fótbolta með Jonna, Svenna, Ingó og Sverri. Ég hélt að það yrði áberandi hversu slæm ég væri í fótbolta en annað var uppi á teningnum (þó ég segi sjálf frá). Ég sparkaði alveg jafnoft út af vellinum eins og þeir. Ég velti því samt sem áður fyrir mér hvort þeir voru að spila svona út af einskærri góðmennsku við mig, tækju síðan meistarataktana fram síðar :o)
miðvikudagur, ágúst 14, 2002
Í gær var mánuður síðan að ég kom heim. Í sjálfu sér er það ekkert merkilegt nema fyrir þær sakir að mig er aftur farið að langa út. Ég nefnilega heyrði aðeins í Pétri í gær (pabbi Nonna, litla drengsins sem ég var að passa) og hann er kominn út aftur til Hollands. Hann lét ekki langt líða þangað til hann sagði mér að hann væri í stuttermaskyrtu í 23 stiga hita og sól. Ég varð vægast sagt öfundsjúk. En í staðinn fyrir að láta það draga mig niður þá ákvað ég að gera eitthvað skemmtilegt og fara að sjá Minority Report. Góð mynd með Tom Cruise í aðalhlutverki sem fjallar um mann sem.....hmmmm, nei, það verður bara að koma í ljós ;). Annars komst ég að því á myndinni hversu góð viðbrögð ég hef, því að tvisvar sinnum í myndinni brá mér allillilega. Í fyrra skiptið var ég næstum því komin yfir systur mína á leið minni út áður en ég náði að átta mig og setjast niður aftur, en í seinna skiptið greip ég hressilega um stólarmana. Síðan tók okkur systurnar eina eða tvær mínútur að hætta að hlæja og einbeita okkur aftur að myndinni. Það er svo fyndið að þegar manni bregður í bíó, bregður næstu fimm manneskjum fyrir aftan og framan mann líka. En að öllu gamni slepptu þá var Minority Report góð afþreying á þriðjudagskvöldi.
mánudagur, ágúst 12, 2002
*geeeeeeiiisp* Jamm og jæja, þá er víst enn einn mánudagurinn að verða búinn. Góð byrjun á vikunni og fínn endir á helginni. Já, helgin....hvað gerði ég aftur um helgina. Föstudagurinn var svo sem ekkert sérstakur, fór í heimsókn til óléttrar vinkonu minnar og hlustaði á hana tala um börnin sem hún mun eiga eftir fimm mánuði sem og sá litlu, dúllulegu fötin sem þau munu fá. Fór síðan heim í rúm. Laugardagurinn var öllu skemmtilegri. Ég fór með systur minni niður í bæ til að versla svolítið og sjá Gay Pride gönguna. Ég gekk líka svolítinn spöl, þar sem Haukur og Úlla voru þar líka. Svo um kvöldið var haldið á Nasa. Mér fannst það bara skemmtilegt að allt í einu væri kominn nýr skemmtistaður í Reykjavík á mjög óáberandi stað. Skemmtilegur staður, skemmtileg tónlist með æðislegu fólki en eiginlega ekki alveg staðurinn minn. *Athugasemd til sjálfs mín: Reyna fleiri staði*. Sunnudagurinn var annar rólegur dagur. Ég fór á rúntinn, heimsótti þessa vinkonu mína aftur, komst að því að ég hafði misst af myndakvöldi :(
og fór ekkert allt of snemma í rúmið. Ég held ég verði að fara að finna mér eitthvað skemmtilegra að gera um helgar heldur en hanga heima. Einhver til í teygjustökk?
|
|