Dagbók brotins hjarta
Í dag komst ég að því að flestir karlmenn, ekki allir en langflestir, eru skíthælar. Þar sem ég er ein af þeim sem kunna ekki að haga sér kringum þá stráka sem þeim líst vel á, lendi ég oft í þeirri aðstöðu að bíða eftir að þeir gefi mér merki. Einum of oft hef ég lent í því að þessi merki þýða „Ég hef ekki áhuga á þér.“
Ég hef fimm sinnum orðin skotin í strák á þessu ári. Fimm sinnum hef ég þurft að bíða, vona og á endanum verða særð af þeim strák sem ég batt vonir mínar við. Og hvernig strákar voru þetta, gætuð þið spurt? Einn „gleymdi“ að segja mér að hann væri í sambandi. Einn er siðblindur. Einn myndi ekki sýna mér áhuga þótt ég færi til hans í hlébarðabúningi með lampaskerm á hausnum. Einn svaf hjá vinkonu minni og sá seinasti reyndist hafa tilfinningalega greindarvísitölu á við tunguspaða. Flestir þessir strákar hafa í kringum sig hóp af stelpum sem kalla sig vinkonur þeirra en ég held að flestar þeirra hafa aðrar ástæður en það, aðallega vegna þess að ég var í þessum hlutverkaleik sjálf. Ég var fyrir löngu búin að ákveða að ég vildi ekki verða ein af þeim, ekki séns, en lenti samt einhvern veginn í hópnum þar til ég áttaði mig á því og forðaði mér. Það þurfti reyndar að minna mig á loforð mitt í tilviki þess síðasta, en þegar að fullt af stelpum settust í kringum hann eftir að hann lenti í slagsmálum inni á skemmtistað, var ég fljót að forða mér. Ég reyndar vissi fyrirfram að hann hefði ekki áhuga, en það var ágætt að vera skotin í einhverjum í smá stund. Auðvitað hafa aðrir strákar sýnt mér áhuga, en ef að fiðringinn vantar hjá mér finnst mér ekki vera sanngjarnt gagnvart þeim að láta þannig. Nú er svo komið að ég er tilbúin að gefast upp. Sjálfsálit mitt er í molum og ég er alvarlega að velta fyrir mér að leita til sálfræðings til þess að átta mig á hvers vegna ég dreg svona stráka að mér. Á meðan vinir mínir eru öruggir og ánægðir í sínum samböndum lendi ég í því að velja verstu strákana sem ég gæti fundið. Þeir hafa reyndar boðist til þess að hjálpa mér, en það fyndna er að langflestir, vinir jafnt sem vinkonur, benda á einn af þessum strákum. Ég vissi að máltækið “líkur sækir líkan heim” ætti við vini, en þurfti það endilega að þýða að vinir mínir hefðu sömu stráka í huga fyrir mig og ég sjálf??
Sem bein afleiðing alls þessa (og undanfarinna ára) hef ég sett saman nokkrar meginreglur sem ég nota í samskiptum mínum við stráka. Það getur vel verið að það séu engar stoðir fyrir þessum reglum mínum í raunveruleikanum, en ég ætla að halda áfram að lifa eftir þeim. Þær eru í engri sérstakri röð.
1. Strákur sem sýnir stúlku þá virðingu að reyna við hana þegar hann er ekki fullur eru mun líklegri til þess að vilja fara í gott, heilbrigt samband við hana heldur en þegar viðreynslan inniheldur áfengi.
2. Strákur sem reynir við stúlku þegar hann er fullur vill kynlíf.
3. Strákur sem reynir við stúlku þegar hann er fullur og segist ekki (bara) vilja kynlíf sýnir stúlkunni ekki þá virðingu sem hún á skilið. Annaðhvort hefur hann ekki haft þor til þess að reyna við hana edrú (og þá er illt í efni því hann gæti leitað til áfengisins undir öðrum, stressmeiri kringumstæðum) eða hann varð fullur áður en hann hitti hana. Í þeim aðstæðum er vísað á reglu tvö.
4. Stúlka skal leitast við að halda sig utan við vinkonuhring stráksins sem hún hefur áhuga á. Ef hún gerir það ekki gæti hún átt á hættu að verða flokkuð sem vinkona (og þar með einungis ein af fjöldanum) eða sem ákafur aðdáandi (sem gæti orðið til þess að strákurinn fer annaðhvort að forðast hana eða telur að það sé í lagi að haga sér eins og karlrembusvín nálægt henni).
5. Strákar
eiga að eltast við stúlkur. Slíkt gefur til kynna sannan áhuga sem sparar stúlkunni óþarfa tímaeyðslu við vangaveltur um hvort “hann sé virkilega hrifinn af mér” og þar með óþarfa særindi sem gætu átt sér stað.
Nú gæti einhver sagt að ég sé að toga í blómin, að þetta komi alveg örugglega einhvern tímann og að það sé engin ástæða til þess að örvænta. Þá vil ég koma svolitlu á hreint. Ég örvænti ekki. Ég er ekki að leita mér vitandi vits að kærasta. Ég geng ekki upp að næsta manni og spyr hvort hann vilji koma út með mér eða hvort hann vilji verða kærastinn minn. Ég hins vegar virðist vera afskaplega nösk á að verða hrifin af strákum sem eru ekki/geta ekki orðið hrifnir af mér. Það eina sem ég bið um er smá ráðlegging um hvernig ég eigi að breyta þessu mynstri, hvernig ég eigi að velja betur og hvernig í ósköpunum ég eigi að forðast þessa skíthæla sem eru þarna úti. Er það til of mikils ætlast?
Ég fór til spákonu í byrjun þessa árs. Hún sagði við mig að þetta ár yrði mér erfitt á marga vegu og er óhætt að segja að hún hafi hitt naglann á höfuðið. Það eina sem ég hlakka til núna er að geta sagt um áramótin: ,,Fari þetta ár og veri.”