Það er busadagur í dag í MS, menntaskólanum hennar Maríu. Samkvæmt siðvenju verður eitthvað niðurlægjandi gert við busana og var þeim því sagt að koma í fötum sem mætti eyðileggja. Einnig voru stúlkurnar beðnar um að koma ómálaðar. María var búin að heyra aðalatriði busavígslunnar, þ.e. það á að skríða á jörðinni, borða graut og drekka mysu, og hafði hún áhyggjur af mysudrykkjunni. Ég er svo sem ekki mikill stuðningsmaður þessarar niðurlægingar, en skil þó að þetta er ómissandi hlutur af félagslífinu, svo lengi sem þetta gengur ekki út í öfgar. Eftir að mamma hafði reynt að sannfæra Maríu um að mysa væri á bragðið eins og lélegt hvítvín, kom næsta,
alvarlega áhyggjuefni upp á yfirborðið. Hún var búin að horfa á sjálfa sig í speglinum í smá stund, strjúka hugsandi yfir andlitið og sagði síðan: „Ojjj, það er ömurlegt að vera ekki máluð!" Ég gat ekki annað en hlegið með sjálfri mér. Þessi litla systir mín þarf varla að eiga við unglingabólur, er rosalega sæt og hefur áhyggjur af því að koma ómáluð í skólann. Á meðan fer ég næstum því ógreidd og ómáluð í skólann, lít sennilega stundum út eins og niðursetningur (gerum við það ekki öll einstaka sinnum?!) og hef engar áhyggjur af því. Það er stundum erfitt að vera gelgja!! :o)
Annars finnst mér ömurlegt hvað þessar busavígslur eru orðnar harkalegar. Busadagurinn hefur náttúrulega alltaf gengið út á niðurlægingu nýnemanna, en miðað við sögur af því að fólk hafi verið skilið eftir uppi í Esju eða bundið við staur einhvers staðar í marga klukkutíma, þá finnst mér þetta ganga út í öfgar. Af hverju þurfa unglingarnir að verða fyrir þessari niðurlægingu, einungis til þess að vera teknir inn í skólann? Sennilega er þetta justification-of-effort, eða réttlæting áreynslu. Þetta hugtak vísar í það að ef fólk þarf að leggja á sig mikið fyrir lítinn ávinning, verður sá ávinningur verðmætari vegna allrar áreynslunnar. Í þessu tilliti verður skólavistin enn dýrmætari/skemmtilegri vegna þess að fólk þurfti að leggja á sig ýmsan óþverra til þess að verða fullgildir nemendur við hann. Auðvitað er ekki öll busun alslæm. Sumir hafa lent í því að syngja Gaudeamus igitur á meðan þeir gera armbeygjur, eða vaska upp fyrir pizzu fyrir eldri nemanda, og finnst mér það allt í lagi. En þegar busadagurinn gengur út á að afklæða nemendur, berja þá eða láta þá æla, verð ég að velta fyrir mér hvert þetta þjóðfélag stefnir. Er hægt að réttlæta svona hegðun með að þetta sé allt hluti af gríninu, eða þurfa eldri nemendur í menntaskólum að hugsa sinn gang áður en þeir hefna sín fyrir það sem gerðist á busadaginn þeirra?
E.s. Það sem mér finnst þó verst í sambandi við busavígslurnar, er þegar nemendur í 10. bekk taka saman og busa krakka í 8. bekk með því að krota framan í þá og eyðileggja fötin þeirra.