Heil og sæl :) Það er orðið frekar langt síðan að ég settist niður og bloggaði, en það er ekki mér að kenna í þetta skipti. Ég hef sem sagt átt í erfiðleikum með að komast inn á bloggið mitt, eins og þið hin hafið sennilega rekist á. Það fyrsta sem er í fréttum hjá mér er að ég er loksins búin að komast að því hvers vegna Íslendingar drekka svona mikinn bjór. Ég veit að ég skrifaði fyrir mánuði síðan að ég skildi ekki hvers vegna fólk vildi verða fullt. Ég komst að ástæðunni á fimmtudaginn og ég veit ekki almennilega hvort ég eigi að skammast mín eða brosa að þessu. Þannig er mál með vexti að ég fór í vísindaferð á fimmtudaginn í Vífilfell. Þar ákvað ég að bragða lítillega á veitingunum sem voru bjór og saltkringlur. Svo var haldið á kaffihúsið við hliðina á Astró, þar sem ég fékk nokkra bjórsopa hjá vinkonum mínum. Eftir stutta dvöl á kaffihúsinu var farið í pool-salinn á Hverfisgötunni þar sem mér var boðið upp á eitt glas af bjór. "Glasið" reyndist vera hálfur lítri sem ég gat ekki klárað ein. Nú kann einhverjum að þykja skrýtið hversu mikinn bjór ég drakk, þar sem ég hef margoft talað um ógeð mitt á þeim drykk, en það sem ég komst að var að bragðlaukarnir hættu að virka eftir tíunda sopa. Málið var jafnvel orðið það slæmt að ég fann ekki mikinn mun á bjór með Sprite í og venjulegum bjór. Þar sem að ég var búin að fá nokkuð marga sopa hjá félögum mínum, getið þið sem þekkið mig sennilega ímyndað ykkur hvernig ég var orðin upp úr hálf-ellefu. Heimurinn var mjög skemmtilegur, ég var svífandi á milli pool-borðanna, stoppaði, ruggaði (óviljandi) fram og til baka, flissaði, rabbaði við fólkið, flissaði meira og settist niður. Eftir stutt stopp á Devito's fór ég heim þar sem pabbi tók á móti mér og segist hann aldrei hafa séð mig svona létta og svífandi áður. Það sem ég kunni helst að meta við þetta ákaflega skemmtilega kvöld, fyrir utan að ég var ekkert ringluð eftir alla bjórdrykkjuna, var að ég sofnaði um leið og ég skreið upp í rúm og svaf eins og steinn til hálf-sjö. Daginn eftir lýsti ég því yfir að mig langaði aftur á djammið til þess að athuga hvort kvöldið var svona skemmtilegt vegna félagsskaparins eða áfengisins. Því miður varð ekkert úr því, en ég er búin að ákveða að halda þessari rannsókn áfram :)