Útbreiðsla stjörnutrúarinnar heldur áfram. Ég sagði nokkrum samnemendum frá merkingu orðsins stjörnu og er ekki hægt að segja annað en að það hafi vakið mikla kátínu, sérstaklega þegar gengið var framhjá hillum með stjörnufræðiflokkum í Bókhlöðunni. Í staðinn fékk ég að heyra af hverju hjartaformið tengist ástinni (þ.e. formið sem er gefið á Valentínusardaginn og við fleiri tækifæri). Þannig er mál með vexti (hmmm, af hverju ætli mál sé með vexti?) að fornleifafræðingar fundu þetta sérstaka form á hellisveggjum og komu upp miklar vangaveltur vegna þess. Niðurstaðan var sú að fyrir löngu síðan var þetta sérstaka form það sem karlarnir sáu þegar þeir vildu láta vel að rekkjunaut sínum (eða eins og ég fékk að heyra það: "Do it like they do on the Discovery Channel"). Þetta hefur verið svo algildur siður að einhverjum með listamannshæfileika hefur fundist það vera skylda sín að minna komandi kynslóðir á hvor endinn væri betri. Svo að næst þegar þið fáið hjartalaga konfektkassa að gjöf, eða eitthvað sem hefur þetta einstaklega sérstaka form, skulu þið velta fyrir ykkur hvað gefandinn sé eiginlega að vilja. Góðar stundir!
*geeeiiiiiisp* Það er nú meira hvað maður þarf alltaf að peppa sig upp í að vera lengur á Bókhlöðunni. Ég er núna búin að vera frá hádegi hérna og er orðin svolítið þreytt. En það er betra að vera þreytt heldur en stressuð (miðað við lærdómsleysi undanfarna daga). Annars er það að frétta að ég er í fartölvuleit. Það er ekki lengur nóg að vera í tölvunni heima og á háskólasvæðinu, maður verður líka að hafa eina svoleiðis í tímum og við glósugerð. Annars er alveg einstaklega skemmtilegt að sjá hvað fólk er að gera í tölvunum sínum þegar það á að vera að læra. Ég stend mig oft að því að horfa yfir axlir fartölvueigenda í tímum, bara til þess að sjá hvernig gengur í kaplinum sem þeir eru að leggja. Ég þurfti meira að segja einu sinni að stöðva sjálfa mig í því að segja "spaðafimma á spaðasexu í þriðja bunka". Bleh, ég verð að muna eftir að hafa læsingu á öllu svona í minni tölvu, a.m.k. í tímum. Ég á það nefnilega til að vera aðeins lengur í leikjum en ég ætla, sérstaklega ef þetta eru svona no-brainers eins og finna má á
Miniclip.
Var einhver annar en ég hissa á snjókomunni sem kom loksins hérna fyrir sunnan? Ég var farin að sjá jólasnjó svífa hægt og tignarlega til jarðar eins og ballerínur í Svanavatninu. Í staðinn kemur Formúla snjósins, með engu leyfilegu stoppi. Það er eflaust hægt að finna margar skemmtilegri líkingar en þetta, ég bara gafst upp að reyna (var komin með gargandi hershöfðingja og spretthlaupara á undan ljónum). Nóg í dag!
Partial correlation coefficient, hér kem ég!!
Þetta var stutt sæla. Snjórinn er að vísu ekki farinn en hann er á góðri leið með að verða troðinn niður, eins og flestir Reykvíkingar hafa áttað sig á. Það hefur í raun lítil áhrif á mig, ég er jafnánægð og áður. Ég er meira að segja hæstánægð með kuldann sem er úti, þeim mun meiri ástæða til þess að hafa það huggulegt inni með kökur og kakó.
Helgin var ágæt, ég fór í vísindaferð á föstudaginn í Egils sem endaði svo niðri á Astró. Ég get ekki neitað því að ég hef skemmt mér betur í bænum, enda var ég komin heim í náttföt fyrir framan sjónvarpið upp úr níu. Laugardagurinn var einnig góður, ég var alltaf á leiðinni í Bókhlöðuna en náði þó ekki lengra en í háskólaútgáfuna. Kvöldið fór svo í ljúft partí hjá Hauki og Úllu, með fámennum en góðmennum hópi af fólki. Fólk var farið að geispa upp úr 12 og allir farnir heim klukkutíma síðar. Það var þó mjög skiljanlegt, tunglið var fullt og stórstreymi, sem þýðir að fólk hegðar sér á öfgakenndan hátt. Við fórum þó greinilega í vitlausa hlið skalans. Á sunnudaginn fann ég loksins Hlöðuna, en fór stuttu síðar heim í algeru niðurfalli af stressi og áhyggjum yfir öllu þessu námi. Ég náði þó að taka sönsum seinna um daginn og leyfði mér að borða ís í fyrsta skipti í langan tíma. Ætli Ben&Jerry's ís sé eins góður hérna heima eins og í Hollandi? Ummmm, jambó og Ben&Jerry's!