Jæja, þá eru jólin næstum því búin. Ég hef haft það einstaklega gott í fríinu, unnið og slappað af eins og sönnum Íslendingi sæmir. Áramótin voru góð, ég var fyrst heima í faðmi fjölskyldunnar og fór svo í mjög gott partý hjá Ástu og Ívari. Þar lenti ég í skemmtilegum samtölum við fólk sem ég hef ekki séð einstaklega lengi og naut þess út í ystu æsar. Svo fór nýársdagur í afslöppun og almenna leti.
Það veldur hálfgerðum vonbrigðum að skólinn byrji aftur eftir aðeins eina og hálfa viku. Það virtist vera svo langt í vorönnina þegar jólaprófin voru búin. Ég get hins vegar ekki neitað því að það verður gott að komast í venjulega rútínu aftur, með námi í Bókhlöðunni á daginn og leikfimi á kvöldin, því þó að vinnan göfgi manninn hef ég allt of lítið að gera í Lyfjadreifingu til þess að það hafi áhrif.
Eitt af því sem mig langar til að gera er að safna fyrir utanlandsferð fyrir sumarið, þó að hrakspár pabba og mömmu bendi til mikillar hækkunar á fargjöldum og minnkunar á flugi. Bjarta hliðin er sú að ef viljastyrkur er nóg til þess að koma hlutunum í verk þá hlýtur minn viljastyrkur að koma mér einhvern veginn til sólarlanda þetta sumarið. Það hefur gerst áður. Við sjáum hverju fram vindur.
Gleðilegt nýtt ár, dúllurnar mínar. Megið þið ná öllum ykkar markmiðum á árinu og skemmta ykkur jafnvel, ef ekki betur, en á árinu sem er að líða. *stórt knús*