Allir vildu Lilju kveðið hafa
 

 
Almennt fnuss út í heiminn
 
 
   
 
föstudagur, nóvember 22, 2002
 
Það eru seinustu forvöð að skrifa eitthvað áður en ég byrja í prófum. Þ.e.a.s. seinustu hlutaprófunum sem ég fer í haustönnina 2002. Mikið er skrýtið að nóvember er að verða búinn! Ég er sem sagt að fara í þrjú próf næstu vikuna og þarf að skila einu heimaverkefni um tilraun sem ég gerði. Það er meira að segja spurning hvort ég nái eitthvað að blogga næstu þrjár vikurnar, því að eftir þessi hlutapróf er náttúrulega komið upplestrarfrí. En ætli maður reyni nú ekki að skrifa eitthvað.
Hvað hef ég svo verið að gera? Frekar lítið. Ég fór ekki í kvöldgöngu á fullu tungli vegna þess að ég hélt að það yrði skýjað um kvöldið. Þess vegna labbaði ég róleg í leikfimi og úr henni aftur, aðeins til þess að sjá að tunglið skein skært og skýin að fara. Það voru meira að segja norðurljós. Ohhhh, jæja, það gengur bara betur næst. Einnig hafa komið upp þær vangaveltur að hafa Voyager maraþon eitthvert kvöldið, þar sem ég hef ekki séð seinustu tvær seríurnar og gæti ekki hugsað mér að eyða jólafríinu betur (þ.e. ef ég fæ ekki vinnu). Endilega hafið samband ef ykkur langar til þess að vera með, því ég er farin að sakna félaganna úr Sögu og finnst ekki nógu gott að þurfa að bíða eftir afmælum til þess að hitta gamla vini :) Ég er búin að hlusta mikið á jólalög upp á síðkastið (hmmmm, af hverju ætli það sé) og mér til mikillar ánægju var mamma búin að baka fyrstu hafrakökurnar þegar ég drattaðist dauðþreytt heim úr Bókhlöðunni í gær. Þær endast víst ekki lengur en til kvölds. Ég fór líka í Kringluna í gærkvöldi og tók litlu (15 ára) systur mína með mér. Ástæðan fyrir því var að mig vantaði buxur. Við fórum meðal annars inn í Gallabuxnabúðina þar sem María byrjaði á því að rétta mér buxur númer 12 (ég er í stærð 12, eða a.m.k. svo hélt ég). Ég fór inn í mátunarklefann, sæl og ánægð með hvað ég væri nú orðin grönn og fín til þess að geta komist í stærð 12 og byrjaði að klæða mig í þær. Ég komst í þær, en ég leit út eins og sprunginn kalkúnn. Ekki alls kostar ánægð með þetta bað ég litlu systur um að koma með stærð 14, sem hún og gerði en þá tók ekki betra við. Ég komst í buxurnar, náði meira að segja að hneppa, en ég hefði ekki unnið snigil í kapphlaupi miðað við hvernig ég gekk. Síðan bætti María við fatnaðinn og kom með forláta bol með glimmeri. Ég er ennþá að tína glimmerið úr hárinu. Ekki alveg sátt við þessi örlög að passa í buxurnar gekk ég upp að afgreiðslukonunni og spurði hvort að það gæti nú verið að þetta væru lítil númer. "Auðvitað" sagði hún og brosti blítt. Ég dró þá ályktun að Gallabuxnabúðin væri búð fyrir unglingsstúlkur sem eru ekki komnar með mjaðmir og hefði ég mátt vita það fyrr. Út frá þessu alhæfði ég að ég myndi ekki finna sæmilegar buxur fyrir mig í Kringlunni og ákvað að fara í Smáralindina á laugardaginn í staðinn. Ég vona að ég komi í betra skapi úr búðum þann daginn :).

 

 
   
  This page is powered by Blogger, the easy way to update your web site.  

Home  |  Archives