Ætli maður verði nú ekki að láta vita af sér endrum og eins. Ég er (eins og vanalega) á fullu í skólanum og hangi á Bókhlöðunni alla virka daga vikunnar. Ég ætla síðan líka að vera rosalega dugleg þegar heim er komið en eitthvað fer það ofan garðs og neðan. Mér er farið að líða eins og bækurnar á Bókhlöðunni þekki mig betur heldur en vinir mínir. Til þess að koma upp á yfirborðið endrum og eins fer ég í ræktina á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum, í Kjólinn fyrir Jólin eins og námskeiðið heitir. Fór ég í einn slíkan tíma í gær og kom frekar þreytt heim. Síðan hringir vinkona mín í mig og spyr hvort ég vilji koma með í salsatíma. Skiptir þá engum togum um það að ég samþykki og þýt út því að salsatíminn hefst eftir kortér og ég er heima. Bruuuuuunnnn, bruuuuuuunnn. Fyrst áttum við bara að horfa á tímann en þegar konan sem sagði það var farin, fengum við að vera með. Verð ég nú að segja að mér leist ekki á blikuna þegar ég gekk fyrst inn í salinn. Þar voru tvær konur að dansa við hvor aðra, báðar klæddar í afkáraleg, gömul, appelsínugul gluggatjöld (eða gólfmottur, ég er ennþá að velta þessu fyrir mér) sem höfðu verið klippt til að hylja rétt mátulega mikið af líkama þeirra. Þær héldu samt uppi rokna stuði og fékk ég að dansa af lífs og sálar kröftum. Enda kom ég dauðþreytt heim, skellti skólabókum niður í tösku og fór í rúmið. Mikið verður gaman að fá aukaorkuna sem leikfimin á að gefa manni. Í millitíðinni sef ég bara meira :o)